22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

112. mál, merking á kjöti

Framsögum. (Björn Sigfússon):

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) hefir svarað háttv. þm. Dal. (B. J.), svo að eg losna við það að miklu leyti. Að eins vildi eg benda á, að það er ekkert nema spádómur, að stimplun annara manna en dýralækna muni enga tiltrú hafa erlendis. Það hafa verið lögð drög til þess að fá fulla vitneskju um þetta efni frá útlöndum, og er von á svari innan skamms. Eg get ekki fallist á það, að þessir menn, sem numið hefðu kjötskoðun hjá dýralækni, yrðu ekki færir til þess að dæma um, hvort kjötið væri heilbrigt eða ekki. Stjórnin mundi ekki fela öðrum þetta verk á hendur en þeim, sem full trygging væri fyrir, að hefðu vit á því.

Eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) tók fram, þá væri þessi stimplun jafnframt trygging fyrir því, að vel væri með kjötið farið. Eg treysti því, að hin hv. deild hafi ekki á móti frumv. og lofi því að ganga til 2. umr.