06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

112. mál, merking á kjöti

Bjarni Jónsson:

Eg hefi komið fram með brtill. við frumv. í samræmi við ræðu mína við 1. umr. þess. Eg skal enn taka það fram, að það mun ekki leiða til þess, að kjöt hækki í verði, að skottulæknum verði leyft að merkja. Síðan dýralæknar fóru að stimpla hér kjöt hefir kjöt merkt af þeim hækkað um 7—8 kr. tunnan, en annað kjöt þó ekki fallið í verði. Þessi mismunur stafar af því, að efnafólk í Kaupmannahöfn lítur ekki við öðru kjöti en því, sem merkt er af dýralæknum. Annað kjöt kaupa fátæklingar. Ef skottudýralæknum yrði leyft að merkja kjöt, mundi það ef til vill leiða til þess, að stimplað kjöt lækkaði í verði, því að enginn mundi þar hinna efnaðri manna reiða sig á merking þeirra. Eina ráðið til þess að meira kjöt seldist dýrara væri að fjölga dýralæknunum, enda mundi það borga sig, þótt hér yrðu t. d. 8 dýralæknar, og fram yfir það; mætti meðan ekki er völ á innlendum dýralæknum taka norska eða danska dýralækna. Það er enginn efi á því, að ef slíkum aukastimplurum væri leyft að merkja, mundu dýralæknarnir taka sér annað merki en þeir. Það er varhugavert að nota stimpla, sem verða mega til þess að veikja tiltrú á íslenzku kjöti, og er það aðalatriðið í þessu máli. Vona eg því, að mínar brtill. verði samþyktar.