06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

112. mál, merking á kjöti

Bjarni Jónsson; Eg skal geta þess, að eg notaði ekki orðið:

skottudýralæknir í neinu óvirðingarskyni, heldur hafði eg það um þá menn, sem lært hefðu kjötskoðun hjá dýralækni, af því mér datt ekki neitt annað heppilegra orð í hug í svipinn. Þessir menn eru ekki annað en skottudýralæknar, því þeir hafa ekki fullkomna þekkingu í þeirri grein, sem þeir eiga að fást við. Með þessu fyrirkomulagi, sem nefndin stingur upp á, er kjötskoðunin þannig úr garði gerð, að hún getur ekki vakið traust og tiltrú erlendis, en það er þó tilgangurinn með kjötskoðuninni.

Nefndin hefir leitast við að finna ráð við því, að kjötið verði útgengileg vara erlendis, en það er ekkert annað ráð við því, en að láta dýralækni skoða kjötið og stimpla það. Þeir menn, sem gefa háa verðið fyrir það erlendis heimta að kjötið sé gott. Þeir neyta aldrei nema þess kjöts, sem skoðað er af dýralækni. Þetta eru efnamenn, sem hafa ráð á að borga hátt verð. Ef þessir skottudýralæknar fá leyfi til þess að setja stimpil á kjötið, þá mundi sá stimpill alstaðar í útlöndum vera skoðaður sem nr. 2, eða með öðrum orðum, þetta mundi verða skoðaður sem svartur stimpill á kjötinu og tiltrúin á kjötinu mundi veikjast erlendis. Ef þetta verður samþykt, þá yrði það til þess, að alt kjötið félli í verði. Þeir landshlutar, sem ekki eiga kost á að ná í dýralækni, verða að sætta sig við að fá lægra verðið, sem þeir fá nú. Það eru að eins þeir landshlutar, sem ná til dýralæknis, sem geta fengið hærra verðið. En ef skottudýralæknarnir hefðu leyfi til þess að nota stimpil dýralæknis, þá mundi það verða til þess, að alt kjötið félli í verði. Þeir menn, sem nú kaupa óstimplað kjöt, mundu einnig kaupa það kjöt, sem þessir skottudýralæknar hafa stimplað og, gefa sama verð fyrir það og þeir gefa fyrir óstimplað kjöt nú.

Þá kem eg að einum lið, sem ekki má standa. Það er liðurinn um, að ekki megi taka hærra gjald af hverjum kropp, sem skoðaður er en 5 aura. Eg hefi heyrt sagt, að menn hefðu í hyggju að fá dýralækna hingað frá Noregi til þess að skoða kjöt í haust. En það er hætt við, að þeir mundu ekki fást, ef ekki má taka hærra gjald en 5 aura fyrir að skoða hvern kropp.

Eg hefi ekki sannfærst af ræðu hv. framsm. (B. S.) og get ekki fallist á tillögur nefndarinnar í þessu máli. Eg vona, að háttv. deildarmenn geti verið mér sammála í þessu máli. Eg hefi ekki flanað að þessu. Eg hefi leitað upplýsinga hjá Magnúsi Einarssyni dýralækni um þetta mál, og eg er sannfærður um, að þetta er rétt.