06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

112. mál, merking á kjöti

Sigurður Gunnarsson:

Þetta er mjög alvarlegt mál, og eg get ekki láð nefndinni, þó hún hafi reynt til þess að finna eitthvert ráð til þess að bæta úr dýralæknaskortinum, því reynslan hefir sýnt, að það kjöt, sem stimplað er af dýralækni, selst miklu betur, svo að það hafa fengist 4 til 5 og upp í 8 kr. meira fyrir tunnuna af því kjöti en óstimpluðu kjöti. Eins og nú standa sakir, þá er það ekki nema nokkur hluti landsins, sem nær til dýralæknis, og á þann hátt orðið þessa hærra verðs aðnjótandi. Þetta er með öllu ófært.

Nú hefir nefndin reynt að bæta úr þessu, með því að leggja það til, að menn, sem lært hafi hjá dýralækni að rannsaka kjöt, séu látnir stimpla kjötið, þar sem þeir sjálfir ná ekki til. En hv. þm. Dal. (B. J.) segir, að þessi stimplun slíkra manna sé sama og engin stimplun. Líklega er hann, eða ætti að vera reyndari í þessu efni en eg. En eg vil samt sem áður spyrja hann um, hvort hann sé alveg viss um, að þessi staðhæfing hans sé rétt. Það er hart, finst mér, að að eins nokkur hluti landsins skuli geta orðið þessa hærra verðs aðnjótandi, ef, sem eg ekki efast um, má bæta úr þessu á þann hátt, sem nefndin leggur til. Ef þetta væri ekki tiltækilegt, munu landsmenn í þeim hlutum lands, er dýralæknar ná ekki til, hljóta að heimta ný dýralæknaembætti, og ekki verður það ódýrara.