20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Björn Þorláksson:

Eg á 2 örlitlar brtill. við þetta frv. og hefir hv. frsm. getið þeirra beggja. Önnur gengur í þá átt, að ekki þurfi að vera fleiri en 5 menn í félagi til þess að geta orðið styrks aðnjótandi. Eg þekki dæmi um fámennan hrepp á Austurlandi, sem ekki getur fengið neinn styrk, vegna þess að búendur eru þar færri en 10; en færri bændur mega ekki vera í búnaðarfélagi, ef það á að geta fengið styrk samkvæmt núgildandi reglum. Nefndin hefir lagt til, að lágmark félagatölunnar sé fært úr 10 niður í 8. En mér þykir það ekki nógu langt gengið; mér þykir hart, að 5 bænda félag sé útilokað frá öllum styrk, vegna þess að hreppurinn er fámennur og sumir bændur hreppsins skerast úr leik. Menn kunna að segja, að þessir bændur gætu þá myndað félag við annan hrepp, þar sem búnaðarfélag er. En eg get svarað því svo, að búnaðarfélag hvers hrepps hefir sérstök lög, sem ekki er víst, að bændur í nágrannahreppnum vilji játast undir; og þar að auki má benda á það ákvæði, að viss hluti af styrknum á að ganga í fastan félagssjóð. Mér er enda ekki kunnugt um, hvernig á því stóð, að talan nokkurn tíma var takmörkuð. Upphaflega var styrkur þessi veittur til þess að laða menn til jarðabóta, og hefir hann gert mikið gagn í þá átt, en nú er hans minni þörf, því að nú munu menn alment sjá, að það borgar sig vel að vinna að jarðabótum, þó að enginn styrkur sé veittur til þess.

Hin síðari brtill. mín fer fram á, að skoðunarmennirnir haldi áfram að vera 3 í hverri sýslu, eins og þeir hingaö til hafa verið. Ef þeir væru aðeins tveir, þá mundi ferðakostnaður þeirra verða miklu meiri, sérstaklega þar sem sýslur eru víðáttumiklar. Háttv. 2. þm. Árn.

(S. S.) hélt því fram, að hætt væri við meira ósamræmi í skoðanagerðinni, ef þeir væru 3, en úr þeirri mótbáru get eg ekki gert mikið. Annars er mér ekkert kappsmál um þessa brtill., og skal eg því ekki fara fleiri orðum um hana.