23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2013 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þegar litið er á 2. bls. till. sést, að þar kemur orðið meter fyrir 5 sinnum í nefnifalli, en 31 sinni í öðrum föllum. Brtill. á þgskj. 285 fer fram á að breyta meter í stiku í tveim tilfellum; hin eiga víst að haldast.

Hér er ekki að velja milli lögboðinna eða heimilaðra heita. Hver sem vill má tala um hundþunga, seitil eða dreitil o. s. frv. En hin heitin eru lögboðin með metralögunum og háttv. þm. Dal. (B. J.) verður að sætta sig við, að hann varð undir í því máli. Nú vil eg spyrja hann um, hvort honum finst ástæða til að breyta tveimur af öllum þessum heitum, en láta hin haldast.

Mér finst þetta skrípaleikur, að vera að rífa tvö heiti út úr metrakerfinu og leggja þau út í þessari þingsáltill. Hví kemur hinn háttv. þm. ekki með frv. og þýðir þar í öll heiti metrakerfisins.

Þetta kemur raunar lítið þessu máli við. Eg nota jafnan útlendu heitin, get ekki lært hin og vil ekki læra þá sérvizku; þau eru svo hjákátleg. En það væri hlægileg niðurstaða, að rífa þessi 2 heiti út úr kerfinu og íslenzka þau.