14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Sigurður Stefánsson:

Háttv. 5. konungkj. lýsti yfir því, að hann vildi fyrir sitt leyti miklu heldur vera með hinum greinum frumvarpsins, ef 5. gr. yrði feld burtu. Eg vil benda háttv. þm. á það, að frá mínu sjónarmiði stafaði ekki minni hætta af því, ef þær greinar yrðu að lögum. Þær einu tekjur, sem kirkjur landsins nú hafa er kirkjugjaldið; á þessum tekjum er bygt lánstraust þeirra hjá hinum almenna kirkjusjóðs. Þetta lánstraust stendur mjög höllum fæti, ef hver maður getur losað sig undan gjaldskyldu til kirknanna, með því að segja sig úr þjóðkirkjunni, en þar með hyrfi öll trygging fyrir því, að hægt væri að halda kirkjunum í sómasamlegu standi, þar sem svo getur auðveldlega farið, að lítið brot af söfnuðinum yrði eftir í þjóðkirkjunni. sem yrði alls ófært til að standa straum af sóknarkirkju sinni. Að því er lán kirkjunnar snertir, lenti þetta auðvitað á landsjóðnum og gæti því haft meiri útgjöld fyrir hann í för með sér; en að því er kemur til bændakirknanna, yrði ranglætið enn þá meira. Eigendur þeirra eru skyldir að halda þeim við, og til þess þeir geti það, eru þeim með lögum trygðar tekjur handa kirkjunum. Með svona lögum væru þeir sviftir þessari tryggingu. Bændakirkjueignirnar í landinu hlytu því stórum að falla í verði, ef frumv. þetta yrði að lögum. Það væri óbeinlínis gerð árás á friðhelgi eignarréttarins með svona löguðum lögum.

Það hlýtur þó að vera tilgangur löggjafarinnar að koma í veg fyrir, að gengið sé á rétt einstaklingsins.

Með allri virðingu fyrir háttvirtum 5. kkj., held eg, að hann muni ekki hafa athugað þetta nógu grandgæfilega, finst eins og hann hafi farið á nokkurskonar lausagangi yfir frv. og þá ekki sízt, að því er til kemur 5. greinarinnar. Sem sagt álít eg allar hinar greinar frv. miklu ranglátari og hættulegri, en einmitt þá grein.