16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Framsögumaður (Kr. Dan.):

Eg stend ekki upp af því, að eg hafi nokkru við að bæta framsöguna við aðra umr. Það er eitt atriði, sem aðallega knýr mig til að taka til máls, en það er breytingartillaga sú, sem hér er fram komin.

(L. H. B. Áður en gerð er grein fyrir henni.)

Hún gerir sjálf grein fyrir sér. Hver skynjandi maður getur fundið út, hvað í tillögunni liggur.

Eg vil leyfa mér að byrja strax á því, að lýsa því yfir fyrir nefndarinnar hönd, að hún sér sér ekki fært að ganga að þessari breytingartillögu, sem hér er fram komin. Mér liggur við að segja — eg segi það frá sjálfum mér en ekki nefndinni — að mér finst tillaga þessi hálf hrekkjótt tilraun til að verða málinu að falli. Hún er svo óaðgengileg, að eg vildi heldur að frumvarpið félli en að það yrði samþykt með henni. Eg álít, að þeim, sem bera þessa tillögu fram, væri miklu sæmra að ganga beint framan að frumvarpinu og drepa það hreinlega heldur en að myrða það þannig, mér liggur við að segja með launvígi. Þeir tala fagurlega um samræmið, sem sé í því, að fyrsta frumvarpsgreinin fari fram á, að maður, sem úr kirkjunni gangi, greiði sinn hluta af skuld hennar, þá skuli hann einnig fá sinn hluta af afgangs sjóði hennar; en þetta er algerlega í mótsögn hvað við annað, og á ekki heima í sama lagafrumvarpi. Annað á að vera til að hjálpa við ástandi því, sem kirkjan er í, en hitt miðar að því, að gera kirkjunni erfiðleika. Á hinum staðnum er verið að bjarga kirkjunni við, á öðrum staðnum er verið að fella hana. Það er að því leytinu til ekki hægt að bera kirkjuna saman við ýms samvinnufélagsfyrirtæki, eins og verið er að gera, að þeim félagsskap er þannig varið, að það er hægt að draga hann saman ef félagsmenn ganga úr, en kirkjuna er ekki hægt að draga saman, hún þarf altaf hið sama sér til viðurhalds og uppbyggingar. Eg vil leyfa mér að benda á dæmi. Segjum að kirkjan hafi eignast 2000 kr. og að hún eigi á næsta ári að byggja sig upp, en nú yrði eitthvert afhroð í meðlimatölu við það, að menn færu úr henni, þá mundi það draga þann dilk á eftir sér, að söfnuðurinn yrði að láta af hendi það fé, sem hann hefir dregið saman með súrum sveita til þess, að kirkjan gæti bygt sig upp. Og væri þá með því tvent mist, fyrst nokkur — ef til vill tilfinnanlegur — hluti af eigin sjóði kirkjunnar, sem hún ætti að láta af hendi, og í öðru lagi möguleikinn til að fá lán úr hinum almenna kirkjusjóði, þar sem kirkjan hefði ónóga trygging að setja fyrir láninu. Eg sé því ekki betur en að réttara sé algerlega að myrða frumvarpið, en að það yrði að lögum með þessari breytingu. Kýs eg þá heldur, að að þeir háttv. þingdeildarmenn, sem eru með þessari breytingartillögu, vildu fella frumvarpið. Eg vil leyfa mér að geta þess, að eg hefi borið mig saman við biskupinn um þetta atriði, og er hann mér alveg samdóma um, að með viðbótinni sé frumvarpið einskisvirði. Eg býst við að það verði tækifæri til að taka fram ýmislegt fleira seinna, en eg gat ekki stilt mig um að taka á móti breytingartillögunni með nokkrum orðum.