21.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

7. mál, hagur Landsbankans

Flutnm. (Magnús Blöndahl):

Það hafa víða á þingmálafundum komið fram sterkar raddir um það, að þinginu væri skylt að efla hag landsbankans eftir mætti. Hér í Reykjavík var tillaga í þá átt samþykt með afarmiklum atkvæðafjölda, enda er ekki nema eðlilegt, að mönnum sé ant um landsbankann, sem er alíslenzk stofnun og landið sjálft á. En öllum er það ljóst, að starfsfé bankans er ónógt og slíkt stendur mörgum þjóðþrifafyrirtækjum í vegi. Í öðru lagi er hið núverandi fyrirkomulag á veðdeildinni mjög svo óheppilegt, og brýn nauðsyn til að breyta því sem fyrst og mundi það að sjálfsögðu verða eitt af aðalhlutverkum væntanlegrar nefndar, að finna ráð til þess, að bætt yrði úr því.

Annars þarf ekki að fjölyrða um tillöguna — hún mælir sjálf með sér og eg vona, að hin háttv. deild taki henni vel.