24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Björn Jónsson:

Hv. rh. (Kr. J.) hélt því fram, að spurning sú, sem lögð hafi verið fyrir Ed., sú hin sama, sem nú er hér fram borin, hafi verið og sé sú, hver gæzlustjórn sé lögleg, hvort sú fráfarna eða sú, sem nú er. En eg mótmæli því, að það sé þessi spurning, sem lögð sé fyrir þingið. Þingið getur að eins kosið gæzlustjóra. Það getur ekki úrskurðað, hvort gæzlustjórn sé lögleg eða ekki. Það er dómsmál. Jafnharðan sem þingið hefir kosið gæzlustjórana, og þeir hafa tekið til starfa, er lokið afskiftum þess af því máli. Þeir verða upp frá því að hlíta eftirliti landstjórnarinnar, svo sem aðrir sýslunarmenn landsins, og þingið hefir þá ekkert yfir þeim að segja. Það getur nú rætt mál þetta, látið í ljósi álit sitt um það, en það getur ekki sett gæzlustjórana inn. Það getur að eins kosið menn í gæzlustjórn eftirleiðis, en frekara ekki.

Eg skal skjóta því inn, áður en eg gleymi því, að það er ranghermi hjá virðul. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), að stjórnin hafi óhlýðnast fógetaúrskurðinum frá 6. jan. 1910. Hann heimilaði gæzlustjóranum að eins aðgang að húsum, bókum og skjölum bankans; hefir því alla tíð verið hlýtt.

Þessi þræta við virðul. 2. þm. S.-Múl. um, hvað eg hafi skuldbundið mig til fyrir rétti breytist ekki né fellur við skýringu hans. Ógerla man eg, hvað staðið hefir í því blaði, sem hann kallar stjórnarblað, enda kemur það ekki mér við; það er á ábyrgð ábyrgðarmannsins og eg hefi engu um það ráðið. Lagaheimild er fyrir því í bankalögunum 25. sept. 1885, að víkja megi gæzlustjórunum frá um stundarsakir, og er nóg að vísa í það. Þetta »um stundarsakir« er ekki ákveðinn tími; tímalengdin hlýtur að fara eftir atvikum. Aðalástæðan fyrir frávikningunni var það efnalega tjón, sem gæzlustjórnin bakaði bankanum, og drátturinn, sem á því varð að setja þá inn aftur, stafaði af háskanum, sem yfir bankanum vofði, ef stjórnin hefði gert það. Það er glögt tekið fram í svörum bankastjórnarinnar, sem nú er, hversu ískyggilegar og óviðráðanlega háskalegar afleiðingar það hefði haft um viðskifti bankans erlendis, ef stjórnin hefði gert það.

Virðul. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) þótti of hart í sakir farið við gæzlustjórana. Má vera, að honum og mörgum öðrum þyki það. En þetta bíður nú úrskurðar hæstaréttar. Honum fórust svo orð, að þessi ráðstöfun stjórnarinnar, að skipa rannsóknarnefnd, hafi verið óholl bankanum út á við. En þar blandar hann saman stjórninni og áliti bankans út á við. Það var ekki tilgangur stjórnarinnar að gera þann hvell út úr þessu, sem aðrir gerðu. Ef stjórnin hefði verið látin í friði, mundi aldrei hafa borið á neinu. Stjórnin gerði skyldu sína og ætlaðist til að fá að gera hana í friði og kyrð, þótt svo færi ekki.

Þótt svo væri, að gæzlustjórana bæri að álíta óafsetjanlega eftir 1. jan. 1910, þá er öðru máli að gegna um það, ef þeir hafa verið settir af fyrir þann tíma. Þetta er dómsmál og nú fyrir hæstarétti.

Eg tek það upp aftur, að þingið hefir í þessu máli vald til þess eins, að lýsa velþóknun eða vanþóknun á gerðum stjórnarinnar. Ef það lýsir velþóknun á þeim í þessu máli, er það hið sama sem að segja þær nauðsynlegar til þess að aftra því, að bankinn sykki dýpra og dýpra í það fen og forað, sem hann var í kominn, að kunnugra manna dómi, þegar frávikningin fór fram.