24.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

16. mál, innsetning gæslustjóra Landsbankans

Jóhannes Jóhannesson:

Meiri hluti nefndarinnar kannast við, að ráðherra hafi haft »formellan« rétt til þess að víkja gæzlustjórunum frá um stundarsakir, er frávikningin fór fram.

Hins vegar hafa dómstólarnir íslenzku skorið svo úr eða bygt á því, að rangt hafi verið að meina þeim að hafa á hendi þann starfa sinn eftir 1. janúar 1910, en því dómsákvæði hefir ekki verið hlýtt. Gæzlustjóra efri deildar hefir að vísu verið veittur aðgangur að bókum og skjölum bankans, en aðrir menn en hinir þingkosnu gæzlustjórar hafa haft störf þeirra á hendi.

Með þessu hefir rétti og sóma þingsins og dómstólanna verið hnekt og því má ekki láta ómótmælt.

Á þessu byggir meiri hluti nefndarinnar tillögur sínar í málinu. Að vísu hefir yfirréttardómum þeim, sem kveðnir hafa verið upp í þessu máli, verið skotið til hæstaréttar, en það »suspenderar« ekki gildi fógetagerðarinnar og því bar að hlýða henni. Og eg verð að segja, að það er mér með því ógeðfeldara, sem eg hefi verið vitni að, er foringjar sjálfstæðismannanna íslenzku fóru að skjóta yfirréttardómunum í þessum málum til hæstaréttar í von um, að danskir dómendur kynnu að geta fengið þeim geðfeldari skilning á íslenzkum lögum út úr danskri þýðingu á þeim.

Meiri hluti nefndarinnar lítur því svo á, að nauðsyn beri til, að þingsályktun sú, sem hér liggur fyrir verði samþykt, til þess að endurreisa virðinguna fyrir þinginu og dómstólunum.