16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Steingr. Jónsson:

Hv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) gat þess við 2. umr., að eg hefði blandað saman formhlið og efnishlið málsins. Þetta er rangt hjá hv. þm. Eg leit einmitt á efnishlið málsins. Eg leit á efnið, er eg annarsvegar bar saman þá vernd, er löggjafarvaldið samkvæmt stjórnarskránni á að veita þjóðkirkjunni og hins vegar þá skyldu, er söfnuðirnir lögum samkvæmt hafa til að halda kirkjunum við. Það eru lög 3. marz 1904, er eg hér á við. Þetta tvent samrýmist ekki vel: Ábyrgð sú, sem söfnuðirnir samkv. gildandi lögum eiga að hafa á viðhaldi kirknanna og ákvæðin um utanþjóðkirkjumenn í þessum lögum. Af þessum rökum er eg frumvarpinu hlyntur — eg vildi ráða bót á þessu ósamræmi. Eg skal geta þess, að eg hallaðist auðvitað að þessari stefnu, ekki vegna þeirra, er úr þjóðkirkjunni fara, heldur þeirra, er eftir eru í söfnuðinum.

Eg get ekki fallist á br.till. þá, er hér liggur fyrir, og tel þá betra að fella frv. algerlega, en samþykkja hana. Ef hún yrði samþykt, hefði það margskonar kostnað og fyrirhöfn í för með sér. Þá þyrfti að ákveða um álag á kirkjuna, sjá um, að henni gæti verið skilað í sæmilegu ásigkomulagi o. fl. Um þetta þyrfti ýms ákvæði.

Hv. 5. kgk. þm. fann meðal annars frumvarpinu það til foráttu, að þetta ákvæði gilti að eins um þá, er ættu heima á sóknarsvæðinu. En það stafar af því, að gengið er út frá því sem vísu, að þeir sem flytja burt af sóknarsvæðinu, takist samsvarandi skyldur á hendur, þar sem þeir koma inn annarsstaðar, en það á sér ekki stað, ef þeir eru kyrrir á sóknarsvæðinu, en ganga úr þjóðkirkjunni.