16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Jósef Björnsson:

Eg skal ekki vera langorður um þetta mál. Hv. 5. kgk. þm. hefir tekið fram flestar þær ástæður, er voru til þess, að við gerðumst flutningsmenn þessarar br.till. En það voru nokkur atriði í ræðu hins hv. framsögum. (Kr. D.), er eg vildi minnast á. Hann hélt því fram, að safnaðarmennirnir tækju kirkjurnar að sér samkvæmt frjálsu samkomulagi og samþykki sjálfra þeirra. Við þetta er það að athuga, að þótt söfnuðurinn í heild sinni hafi tekið kirkjuna að sér, með samþykt af frjálsum vilja, þá er einstaklingnum það ekki fullkomlega frjálst, hvort hann tekur við kirkjunni eða ekki. Hann flytur ef til vill, inn á sóknarsvæðið, eftir það að söfnuðurinn hefir samþykt ályktun um að taka kirkjuna að sér og verður þá að gangast undir þær skuldbindingar, er gerðar eru, áður en hann varð safnaðarlimur. En þótt hann sé á sóknarsviðinu, getur hann sem einstaklingur hafa verið því mótfallinn, að söfnuðurinn tæki kirkjuna að sér, en verið ofurliði borinn, og því ekki tekið þessa skuldbinding á sig af frjálsum vilja. Þessi tvö dæmi geta vel átt sér stað.

Hv. framsögum. (Kr. Dan.) gat þess, að það væri ekkert óeðlilegt, þótt prestar hugsuðu um hag kirkjunnar, er þeir ættu að hlynna að. En hann bætti því við, að það væri hagsmunir safnaðanna, er þeir bæru fyrir brjósti sér í þessu máli og hann tók það sérstaklega fram, að þeir hugsuðu um safnaðarbrotið, eða þann hluta safnaðarins, er eftir er, en ekki þá einstaklinga er út úr söfnuðinum fara. En það er ekki ósanngjarnt, þótt gætt sé hagsmuna þeirra líka, ekki sízt er litið er á, hvernig hér er ástatt. Það er óeðlilegt að einstaklingurinn skuli skyldur til að greiða skuld, sem hann hefir ekki tekist á hendur af frjálsum vilja, þegar hann fer út úr söfnuðinum.

Það er líka einkennilegt, eins og háttv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) tók fram, að sumum, sem úr þjóðkirkjunni fara, er veitt undanþága frá þessu gjaldi, sem hér ræðir um. Það er skrítið, að allir skulu ekki eiga að gjalda. úr því að nokkrir eiga að gera það. Eg sé ekki nokkra ástæðu til að sleppa þeim, sem fer út fyrir sóknarsvæðið, en skylda þann, sem er kyrr á því. Hv. 4. kgk. þm. sagði, að þetta væri gert af því, að búist væri við, að þeir tækju að sér sömu skuldbindingar annars staðar. En það er engin vissa fyrir því, að hann flytji þangað, þar sem sömu skyldur og skuldbindingar lenda á honum. Það getur alt öðru vísi staðið þar á. En svo er annað, er gæta verður og það er það, að þetta gjald, sem getur verið misjafnlega mikið — það getur, sem auðvitað er, stundum verið mikið, stundum lítið — á að greiðast í fardögum það ár, er menn fara úr þjóðkirkjunni — og þetta getur gert mönnum óþarflega erfitt fyrir að segja sig úr henni. Og að demba tilfinnanlegu gjaldi á þá, er úr þjóðkirkjunni ganga til að létta af þeim, er eftir eru í henni, — það finst mér ranglátt og óheppilegt.

Það er eftirtektavert, að hv. framsögum. segist heldur vilja, að frumv. falli, ef brtill. okkar, hv. 5. kgk. þm. og mín, verður samþykt, og að frumvarpið mundi þá verða þjóðkirkjunni til tjóns. Þetta sýnir betur en alt annað, að hann hefir hér þörf hennar fyrir sjónum og að hér er verið að kasta steini í götu fyrir þá menn, er segja vilja sig úr þjóðkirkjunni.