10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

55. mál, bréfhirðing og aukapóstar

Jón Jónsson (l. þm.S.-Múl.):

Eg var ekki við meðan hv. flutnm. (Sk. Th.) var að byrja ræðu sína, svo eg veit ekki, hvort hann hefir tekið það fram, hvort þess hefir verið leitað við póststjórn og landsstjórn að fá þessa bréfhirðingu. Það var sú leið, sem sjálfsagt var að fara, en ekki fyrst til þingsins.

Háttv. flutningsm. (Sk. Th.) sagði, að þetta væri ekki nýtt; það er satt, áður meðan við höfðum ekki þingræðisstjórn þá var það eðlilega altítt, að knýja stjórnina til hins og annars, sem hún vildi ekki góðfúslega gera, með þingsályktunartill. En nú síðan þingræðisstjórn er fengin, álít eg að ekki beri að nota þingsályktunartill., nema brýna nauðsyn beri til, og þá eingöngu um eitthvað það, sem meiri hluta þingsins greinir á um við stjórnina. Á síðasta þingi var mikið um þingsályktunartill., og þá hélt eg því fram, að það væri á næstu grösum við vantraustsyfirlýsingu, þegar stór meiri hluti fer þannig með sína eigin stjórn, og því held eg fram enn.

Auðvitað eiga þingmenn að hafa rétt til þess að koma fram með þingsályktunartill., en sá réttur verður gagnslaus, ef hann er notaður um of, notaður í þýðingarlitlum málum hvað eftir annað. Eg vil óska þess, að þingið fari vel með það góða vopn, og annað eins og þetta er hreinasta óvirðing þinginu. Síðasta þing gekk alt of langt í þessu. Meðal annars kom þá háttv. flutningsmaður þessarar till. með eina þingsálytunartillögu, sem langar umræður urðu um, og kom þá í ljós á eftir, að það, sem heimtað hafði verið, var þegar fengið. Þá kom og eitthvað svipað fyrir í efri deild. Eg verð því að vera þessari till. mótfallinn, og vænti þess, að þeir séu fleiri, sem líta á aðalatriði þessa máls líkt og eg, líta svo á, að þessi réttur sé meira og betra vopn í höndum meiri hlutans en svo, að það megi gera hann að hégóma.