10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

55. mál, bréfhirðing og aukapóstar

Pétur Jónsson:

Eg vona að hv. þm. N -Ísf. (Sk. Th.) skiljist það, að eg vil ekki spilla neitt fyrir þessu máli, efni tillögunnar, þótt eg sé því mótfallinn, að samþ. séu þingsályktunartill. um slíkt. Til þess að þingið gæti sagt fyrir um slík efni þyrfti að liggja fyrir því tillögur um samskonar alstaðar annarstaðar frá á landinu og taka svo það sem mest mælir með.

Eg get fullyrt það, að póstmeistarinn fær altaf hjá þinginu aukna fjárveitingu, ef mikil nauðsyn er á einhverju þessu líku. Það er regla og þótt stundum kunni að vera klipið af öðrum fjárveitingum, sem hann fer fram á, þá má segja, að þingið hafi æfinlega vikist vel undir það, að bæta úr þess konar. Það er því trygg leið og góð að snúa sér til póststjórnarinnar. Annað mál væri, ef póstmeistarinn væri sinnulítill og óliðlegur. Bezt væri í þessu máli að samþykkja rökstudda dagskrá, eins og háttv. flutningsm. gat um.

Þá kom fram rökstudd dagskrá frá 1. þingm. S.-Múl. (J. J.), svo hljóðandi.

»Í því trausti, að stjórnin taki það tillit, sem hún telur rétt og sér sér fært, til óska þeirra, sem fram eru bornar með þingsályktunartillögunni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.«