16.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

69. mál, utanþjóðkirkjumenn

Jósef Björnsson:

Eg skal að eins leyfa mér að gera litla athugasemd út af orðum hæstv. ráðherra og háttv. þm. Ísafj. Þeir töluðu um, að í breytingartillögunni fælist agn, sem gæti tælt menn til að segja sig úr þjóðkirkjunni, ef breytingartillagan yrði samþykt. Hinsvegar hefir háttv. þm. Ísafj. tekið til dæmis, að skuldir Húsavíkurkirkju, sem skuldaði þó einna mest kirkna á landinu, væri ekki meira en sem svaraði 14—15 kr. á hvern meðlim safnaðarins, og því gæti það ekki orðið nema lítilfjörlegar upphæðir, sem kæmu á mann til útborgunar samkvæmt frumvarpinu. Alveg það sama er óhætt að segja um skuldlausar eignir kirkna. Þær mundu óvíða nema meiri upphæð á mann en skuld sú nemur, er hér hefir verið nefnd, ef þeim væri skift niður á safnaðarmeðlimina. En nú vil eg spyrja; gæti verið ástæða til að nokkur færi að spekúlera í að segja sig úr kirkjufélaginu til þess að græða svo sem 14—15 krónur? Eg held að það sé lítil ástæða til að óttast slíkt.