03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2085 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

159. mál, millilandaferðir

Jóhannes Jóhannesson:

Viðaukatillaga mín og hv. þm. Sfjk. (B. Þ.) á þgskj. 842 fer fram á það, að alþingismenn á Austurlandi eigi hægra með en nú er að komast af þingi og á. Þingmenn af Austurlandi eru 5, 2 úr hvorri Múlasýslu og 1 af Seyðisfirði, og getur verið, að þingmaður Austur-Skaftafellssýslu noti þessa ferð. Í vetur átti »Vesta« að vera á Seyðisfirði 29. jan., en kom ekki þangað fyr en 1. febr. og kom ekki hingað fyr en 13. febr., svo við vorum 12 daga að hrekjast með henni. Nú fer skip ekki héðan fyr en 17. maí, svo við verðum að bíða viku eftir að þingi er sagt upp. Þetta er dýrt fyrir landssjóð og óþægilegt fyrir okkur. En hægðarleikur að laga þetta með því að fá »Botníu«, sem nú fer bráðlega til útlanda, til þess að koma við á Seyðisfirði, og þá væru þingmenn þaðan ekki nema 36—40 klukkustundir á leiðinni. Þannig sparaði landssjóður sér marga peninga og þetta yrði mikill hægðarauki fyrir þingmenn.

Eg vona, að þessi viðaukatill. verði samþykt, ef rökstudd dagskrá skyldi verða feld.