14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

59. mál, frímerki

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Eg býst við, að hin hv. þingd. taki þessari tillögu vel, svo að ekki þurfi að styðja hana með mörgum orðum.

Eins og menn vita, er aldarafmæli Jóns Sigurðssonar í vor, og hefir margt verið gert til að gera það sem vegsamlegast. Minnisvarði verður honum settur þá, sömuleiðis hafa margar raddir heyrst um það, að stofnsetja háskólann þann dag. Í þriðja lagi hefir tillaga sú, sem nú liggur hér fyrir, verið rædd nokkuð í blöðunum og víðar.

Eg þarf ekki að taka það fram, að þetta er alíslenzkt mál, þótt póststjórn Dana muni hafa ráðið mestu um gerð frímerkja hingað til, enda hefir gerð þeirra verið eftir því. En nú er mál til komið, að Íslendingar fari sjálfir að ráða gerð frímerkja sinna. Það verður ekki alllítill tekjuauki, sem landið fengi af þessum frímerkjaskiftum, þótt tæplega mundi hann verða eins mikill og síðast, er skift var um frímerki.

Við flutningsmenn höfum ekki viljað tiltaka fjölda frímerkjanna, gerð þeirra né hve lengi þau skuli gilda; það viljum við leggja á vald póststjórnarinnar, er betri þekking hefir á þeim málum en við.

Það má vera, að sumum kunni að þykja óþarft að bera upp þessa tillögu, en þar til er því að svara, að þar sem engin trygging er fyrir því, að stjórnin taki þetta upp hjá sjálfri sér, teljum vér þessa leið öruggari til þess að koma málinu í framkvæmd.