14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

59. mál, frímerki

Hannes Hafstein:

Eg mótmæli þeim orðum háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.), að póststjórn Dana hafi ráðið gerð íslenzkra frímerkja. Það er ráðherra Íslands í samráði við póstmeistara, sem ráðið hefir þessu. Gerð frímerkjanna nú er miklu betri en áður, því að nú eru notaðar stálstungumyndir í stað tréskurðarmynda, sem áður var, og tekur lengri tíma nú en áður að fá ný frímerki gerð. Seinast þegar skift var um frímerki, voru myndir beggja konunganna, Chr. IX. og Fr. VIII, settar á frímerkin til bráðabirgða, og var frá upphafi tilætlunin, að bráðlega kæmu önnur frímerki í staðinn. Í samræmi við það hefir fyrverandi ráðherra nú gert ráðstafanir til breytinga á frímerkjunum. Að því er snertir frímerkin til minningar um 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, á fráfarandi stjórn þakkir fyrir, að hafa tekið þetta upp hjá sjálfri sér, og sett það í verk, ella hefði ekkert orðið úr þeirri tilbreytni. Ef fyrst nú hefði átt að fara að gera ráðstafanir í þessa átt, hefði verið ómögulegt að fá frímerkin fyrir 17. júní vegna þess, hve langan tíma það tekur að fá ný frímerki gerð.