14.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

59. mál, frímerki

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Háttv. tveir fyrv. ráðherrar hafa tekið illa þessari meinlausu tillögu. Það var óþarft af háttv. þm. Barð. (B. J.) að ásaka oss um, að vér vildum gera honum einhverja skráveifu með tillögunni. Vér höfðum enga hugmynd um ráðstafanir hans í þessu efni, en þótt það komi oss á óvart, erum vér honum þakklátir fyrir þessa óvæntu röggsemi hans, sem farið hefir verið með sem mannsmorð. Vér höfðum því síður ástæðu til að búast við þessu, þar sem landritari gat þess á fundi í vetur, að hann væri mótfallinn frímerkjaskiftum, og sýndi það að minsta kosti, að honum var ókunnugt um þessa ráðagerð.

Um það, sem 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að Danastjórn hefði engu ráðið um gerð frímerkjanna, þá fullyrti eg ekkert um það atriði. En það stend eg við, að gerð þeirra hafi farið hnignandi. Frímerkin með tveimur kongunum eru óskýrari í allri gerð en þau eldri voru, og þarf nú að rýna lengi í þau, til þess að sjá »Ísland«. Það eina, sem er nokkurnveginn skýrt á þessum frímerkjum, er myndin af kongunum tveimur og stafirnir »R. D.« (Rex Danorum, konungur Dana). Eldri frímerkin voru skýr og glögg, og »Ísland« stóð þar greinilega.

Að það taki svo langan tíma að búa til frímerki, að ekki mundi vera búið að því fyrir afmælisdag Jóns Sigurðssonar, nær engri átt. Nú er miður marz, og afmælisdagur Jóns Sigurðssonar 17. júní. Það eru þrír mánuðir fullir og skil eg ekki annað, en það sé yfrið nógur tími til þess að gera úr garði eina tegund frímerkja.

En úr því skýlaus yfirlýsing hefir komið um, að verið sé að búa frímerkin til, þá eru óþarfar frekari umræður um þetta mál, og tek eg tillöguna aftur.