15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

76. mál, skipaafgreiðslumenn

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Það er vegna almennra umkvartana í sumum norðurhreppum Eyjafjarðarsýslu, að eg ber fram þessa þingsályktunartillögu, enda lýsti þingmálafundur, er eg hélt á Dalvík, yfir óánægju að þessu leyti; sérstaklega var því beint að Thorefélaginu, sem nýtur aðallega styrks úr landssjóði, að það léti ekki svo lítið að fela neinum sérstökum manni móttöku eða afgreiðslu á slíkum farangri. Þetta er mjög bagalegt fyrir menn, sem búa í fjarlægð frá viðkomustað skipanna og annaðhvort ætla að senda eitthvað, eða eiga von á einhverju með skipunum, að vita ekkert, hvert þeir eiga að snúa sér með þau erindi sín. Þess vegna er það, að eg hefi leyft mér að flytja þessa ósk kjósenda minna í því formi að skora á stjórnina, að hún hlutist til um, að öll þau skip, eða útgerðarfélög, sem njóta landssjóðsstyrks til strandferða, hafi að sjálfsögðu ákveðinn afgreiðslumann á hverjum viðkomustað, er stendur á áætlun. Þessum umkvörtunum er sérstaklega, eins og eg gat um, beint til Thorefélagsins og furðar mig það ekki, ef það er rétt, sem eg hygg að sé, að það borgi ekki afgreiðslumönnum nema 4% af fragtinni, en hvorki fyrir farþega eða ferðir sérstaklega, í það minsta ekki á smærri viðkomustöðum, þar sem hið sameinaða mun borga auk þessa 2% farþegagjaldi, 5 kr. fyrir hverja ferð strandbátanna og 10 kr. fyrir hverja ferð millilandaskipanna. Það er því eigi að furða, þótt illa gangi fyrir Thore að útvega afgreiðslumenn á öllum viðkomustöðum, því það mundi ekki borga sig svo sérlega vel.

Eg vona nú, að stjórnin hlutist til um, að hér verði ráðin bót á. Sérataklega er það óheppilegt og illa liðið, þegar afgreiðslumenn eru engir til á afskektum stöðum og dvöl skipanna því venjulegast lítil.