31.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

124. mál, stöðulögin

Hannes Hafstein:

Eg vil leyfa mér að stinga upp á, að tillaga þessi verði ekki rædd hér í deildinni. Efni hennar er áður samþykt á þinginu 1873, og seinast, þegar rætt var um sambandsmálið í millilandanefndinni í Khöfn, var því lýst yfir af íslenzku nefndarmönnunum, að Íslendingar viðurkendu alls ekki stöðulögin sem bindandi lög fyrir Ísland. Það er ekkert tilefni til að fara að endurtaka þessi mótmæli nú, sízt í þessu formi. Orðalagið »hin svo nefndu lög« er ókurteislegt, því að þótt vér ekki viðurkennum þau sem íslenzk lög, þá eru þau gildandi lög í Danmörku, samþykt af ríkisþinginu og staðfest af konungi og eftir þeim njótum vér fjárframlags úr ríkissjóði, sem vér víst ekki viljum afsala oss, og fleiri hluta, er frá sjónarmiði Dana eru mjög mikil hlunnindi. Eg vildi helzt, að þingsályktunartillaga þessi væri tekin aftur, eða þá felt að ræða hana.