01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

24. mál, vitar, sjómerki o. fl.

Framsögum. Augúst Flygenring:

Eins og hv. deild mun kunnugt eru engin ákvæði til í lögum vorum, er reisi skorður við því, að hver og einn geti sett upp leiðarmerki, bygt vita o. s. frv. til leiðbeiningar skipum. Eru því allvíða umhverfis landið leiðarmerki og smávitar, er ekki eru háðir eftirliti landstjórnar, því að hún hefir að eins eftirlit með þeim vitum og leiðarmerkjum, er trygð eru á kostnað landsjóðs. Við svo búið má ekki lengur standa, því að eins og það á annan bóginn er mikilsvert að hafa sem flest leiðarmerki og vita, eins er það á hinn bóginn háskalegt er slíkum leiðarmerkjum er ýmist breytt eða feld niður án þess það sé auglýst, svo sem hingað til hefir átt sér stað um þau leiðarmerki, er sett hafa verið upp af einstökum mönnum, hreppum eða sýslufélögum, af því eigi hafa verið háð eftirliti landstjórnar. Leiðarmerki koma auðvitað því að eins að notum, að sjófarendur geti treyst á þau. Það er því álit nefndarinnar, að frv. það, er hér liggur fyrir sé á góðum rökum bygt, og það því fremur sem landsjóður leggur árlega mikið fé í byggingu nýrra vita og starfrækslu þeirra. Í frv. eru sem sé öll leiðarmerki og vitar lögð undir umsjón og eftirlit landsstjórnarinnar, og með því er ráðin bót á þeirri óreglu, sem hingað til hefir átt sér stað í þessu efni. Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að þó það sé óhjákvæmilegt, að það sé landstjórnin, sem hafi þetta eftirlit nú, þá er eg þess hinsvegar fullviss, að þessu máli verður ekki komið í fyllilega gott horf, fyrr en umsjón og eftirlit með vitum og leiðarmerkjum í landinu verður falið sérstökum, óskiftum manni. Þetta liggur að vísu fyrir utan verksvið nefndarinnar, en eg vil þá taka það fram, að þessi lög verða varla langgæð án breytinga, því að þegar þessi mál verða falin sérstökum eftirlitsmanni, þá þarf að bæta við ýmsum fleiri ákvæðum, sem vanta í þessu frv. T. d. hefði þurft að vera í þessum lögum ítarlegri ákvæði um hættu, er getur stafað af skipsskrokkum eða því um líku og einkum um tilkynningu um slíkt til stjórnarinnar. Nefndin hefir að eins stungið upp á tveim litlum breytingum á frv., eins og tekið er fram í n. ál. Fyrri br.till. lítur að því ákvæði í 1. gr., er segir svo fyrir, að stjórnarráðinu skuli heimilt að nema burt þau leiðarmerki, er nú eru, eða synja um uppsetning nýrra, ef þau teljast gagnslaus eða skaðleg. Nefndin lítur svo á, að á meðan eftirlit með leiðarmerkjum ekki er komið í betra horf en nú er, þá sé ekki rétt að synja um að reisa leiðarmerki, nema það verði að teljast beinlínis skaðlegt eða villandi. Oft geta leiðarmerki komið að gagni fyrir bátalendingar og því um líkt, þó þau hafi enga þýðingu fyrir siglingar alment við landið. Auk þess má nærri geta, að enginn fer að biðja um leyfi til að setja upp leiðarmerki, sé það algerlega gagnslaust. — Við 7. gr. vill nefndin gera þá breytingu, að hafnarsjóður greiði ekki einn allan kostnað, hve mikinn sem verður, við að nema burt úr höfnum eða leiðum inn á þær skipsflök eða annað, er hefir sokkið þar. Við þekkjum dæmi til þess hér við land, að skip hafi sokkið á hafnarleiðum og kostnaðurinn við að nema þau burt, hafi verið ofvaxinn hafnarsjóði. Þessvegna viljum vér breyta greininni þannig, að ákveðið verði, að hafnarsjóður greiði í slíkum tilfellum að eins vissa upphæð, sem að vísu er ákveðin nokkuð af handa hófi upp í kostnaðinn, og að afgangurinn greiðist af landssjóði, þó með þeim takmörkunum, að hafnarsjóður beri einn allan kostnað af duflum og öðrum merkjum, sem sett eru til að gera hafnarleiðina hættulausa á meðan ekki er búið að nema flakið í burt. Nefndin áleit það hættulegt að ákveða að hafnarsjóður skuli bera allan kostnað án styrks úr landsjóði, meðan ekki er komið betra skipulag á þessi mál, og meðal annars ekki eru settar nánari reglur um það hvað leiðir inn á hafnir eru, þær eru auðvitað misjafnlega langar, geta verið þrefalt lengri en hafnarsjóður getur staðið straum af, og vitanlega geta verið skiftar skoðanir um lengd hafnarleiðarinnar. En um lengdir einstakra hafnarleiða, starfrækslu vita og sjómerkja og þessl., þarf að setja föst, ítarleg ákvæði þegar mál þessi eru sett í eitt kerfi undir sérstökum eftirlitsmanni, sem vonandi verður gert bráðlega. Því það er alls óviðunandi að þessi mál sé undir umsjón manns, sem hefir önnur störf á hendi, og getur því ekki gefið sig óskiftan að þeim. En þangað til þetta verður gert, verður að una við ákvæði þessa frv. eins og það er nú, þó mun nefndin ef til vill koma með br.till. í áminsta átt til 3. umr., en vonar að frv, verði samþ. í dag eins og það nú lítur út.