05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (2580)

124. mál, stöðulögin

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg býst við, að háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hafi sannfært hina tómu stóla hér í deildinni. Eg er samdóma honum um efni till., en finst það óviðkunnanlegt að vega oft að dauðum hundi, að vera altaf að krukka í sama farið. Þegar nefnd var skipuð til þess að fjalla um stjórnarskrárfrv., var mikið um það rætt, hvort koma ætti fram með algerlega nýtt frumv., eða að eins breyta hinum einstöku greinum stjórnarskrárinnar. Menn völdu hið síðara vegna þess, að þá þurfti ekki að hreyfa við þeim greinum, þar sem vitnað er í stöðulögin og þar með stofna allri stjórnarbótinni í bersýnilega hættu. Hins vegar kom nefndinni saman um að tekið skyldi fram í deildinni, að þar með væru stöðulögin engan veginn viðurkend. Það er því ekki um efni till., að eg er ósamdóma hinum háttv. flutnm. (J. Þ.), heldur um formið. Þess vegna hefi eg og hv. þm. S-Þing. (P. J.) komið okkur saman um að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

»Þingdeildin lýsir yfir því, að með því að ganga í breytingum sínum á stjórnarskránni fram hjá öllum stöðulagaatriðum, hefir hún alls ekki viljað viðurkenna gildi þessara laga, eins og alþingi, síðan það mótmælti gildi stöðulaganna 19. ágúst 1871, aldrei hefir samþykt þau, og með þessari yfirlýsing tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.

Eg skil ekki annað, en að allir sjái að dagskráin tekur fram hið sama sem þingsályktunartillagan. Hér er skýrt og ljóst að orði kveðið, svo að engum þarf að blandast hugur um, hver sé skoðun og vilji þingsins í þessu máli. Við flutningsm. óskum nafnakalls, svo að það sjáist, hverjir greiða atkvæði með dagskránni og hverjir móti. Ef hún verður feld ætlum við ekki að greiða atkvæði um tillöguna.