05.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

124. mál, stöðulögin

Jón Magnússon:

Mér stæði á sama, hvort dagskráin eða tillagan væri samþykt, ef ekki væri vísað til þess í tillögunni, að hún væri látin verða stjórnarskránni samferða, eins og til áréttingar. Við fyrri breytingar á stjórnarskránni hafa menn óttast, að það kynni að verða skoðað sem samþykking á stöðulögunum, að tilvitnunin til þeirra hefir verið látin standa óbreytt. Að því leyti getur að eins stj.skrárfrv. það, sem samþykt var á þingunum 1902 og 1903, haft þýðingu. Eg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að það sé röng kenning, að það atriði hafi haft nokkra þýðing, hvorki til né frá um viðurkenning eða gildi stöðulaganna, en þessi þingsályktunartillaga gæti bent í þá átt, að menn væru hræddir um, að svo væri. En þá hefði einmitt þingsályktunartill. einmitt enga þýðing. Þar að auki ætti hún ekki að koma fram, fyr en stjórnarskrárfrv. væri samþykt í efri deild. Yfir höfuð er þessi aðferð, að samþykkja þingsályktunartillögur, mjög svo misbrúkuð hér á þinginu. Það var eðlilegt, að ráðgjafarþingin reyndu að koma áhugamálum sínum fram á þann hátt, en það er óviðfeldin aðferð fyrir löggjafarþing.

Loks vil eg geta þess, að eg kann ekki við, að vitnað sé í rit í þingsályktunartillögu; slíkt líkist meir skjalaverði en löggjafa og minnist eg ekki, að það hafi verið gert fyr hér á þingi.