05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

146. mál, tolleftirlit

Framsm. (Ólafur Briem):

Það er sama að segja um þessa till. og till. um útflutningsgjald, að hún er líka frá tolllaganefndinni. Tillagan miðar að því, að skora á stjórnina að hlutast til um, að gildandi reglum um tolleftirlit sé stranglega hlýtt. Hún er í tveim liðum, og lýtur fyrri liðurinn að því, að um leið og ítarlegri ákvæði eru sett í sjálfum tolllögunum um toll af vörum, sem flytjast hingað og teljast til skipsforða, þá sé þess gætt, að ekki sé flutt fleira né meira en rétt er og góðu hófi gegnir, undir því nafni, að það eigi að vera til neyzlu á skipinu sjálfu. Ástæðan til þess, að nefndin hefir hreyft þessu, bæði hér og í brtill. við tolllögin, er sú, að komist hefir upp, að nú að undanförnu hafa verið nokkur brögð að því, að brytar á skipum hér við land hafa flutt hingað tollskyldar vörur til landsins, án þess að greiða toll af þeim.

Viðaukatill., sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) hefir komið fram með, býst eg við að hann skýri sjálfur, og hefir nefndin ekkert við hana að athuga.