27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

150. mál, lyfjaverslun

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þessi tillaga er frá tolllaganefndinni. Þau ákvæði, sem nú gilda um lyfjaverzlun eru orðin gömul. Það er fyrst tilskipun 4. des. 1672 um lyfsala og lyfjabúðir. Konungsbréf 17. jan. 1783. Kansellibréf 16. sept. 1797 og erindisbréf héraðslækna og landlæknis 25. febrúar 1824. Auk þess sem þetta eru orðin allgömul ákvæði, eru þau nokkuð á víð og dreif og nefndin hefir því ekki komið með neitt óþarfa nýmæli hér. Enda kom J. Jónassen landlæknir með frv. á þinginu 1903, um þetta sama efni. Frv. þetta var samþykt í efri deild, en féll í neðri deild með jöfnum atkvæðum. Menn voru þá sammála um, að frv. væri nauðsynlegt, en þótti það fara of skamt, með því það var að eins um lyfjaverzlun héraðslækna, en ekki um lyfsala. Einkaleyfi til lyfjaverzlunar er hér í Reykjavík bundið við staðinn og helzt óhaggað, þótt eigendaskipti verði að lyfjabúðinni. Einkarétturinn gengur kaupum og sölum, án þess landssjóður hafi haft neinn hag af því, þótt þessi réttur hafi hækkað í verði.

Við sölu á lyfjabúðinni hér í Reykjavík, sem hefir farið fram á seinni árum mun verðhækkunin aðallega hafa stafað af því, að fólkið hefir fjölgað hér. Við síðustu eigendaskipti var lyfjabúðin seld fyrir 200,000 kr., þar áður fyrir 120,000 kr. og næst þar á undan fyrir 80,000 kr. Það er að vísu ekki hægt að taka réttinn af núverandi eiganda, en það gæti verið spurning um, hvort ekki væri heppilegt að breyta þessu þannig, að sett væri upp önnur lyfjabúð hér við hliðina á þessari, sem er, — því til þess er full heimild — og veita henni leyfið með góðum kjörum og landssjóður hefði einhvern hluta af ágóðanum, eða þá með því, að lyfjaverðið væri lægra. Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að til skamms tíma var það venja, þegar maður hafði fengið lyfseðil hjá lækni, þá gat hann framvegis fengið sama lyfið út á sama seðilinn, en fyrir nokkrum árum var þessari venju hnekt og mönnum var gert að skyldu, að fá nýjan seðil í hvert skifti, sem þurfti að fá lyfið; auk þess, sem þetta er fyrirhöfn fyrir þann, sem lyfið þarf að nota, þá hefir það aukin útgjöld í för með sér fyrir almenning. Auðvitað hefir þetta verið tekjuauki fyrir hlutaðeigandi lækni, en þó ekki ávalt því sú venja mun vera hér allvíða í bænum, að menn hafi fastan heimilislækni og borgi honum vist gjald árlega og þar sem þessi venja hefir verið, hefir þessi nýbreytni að vísu ekki haft bein, aukin útgjöld í för með sér, en þá hefir það ekki verið annað en aukin fyrirhöfn fyrir lækni. Það er heldur ekki víst, að læknar láti sér ant um að halda þessu. Þetta atriði ætti meðal annars að athugast, þegar lögin eru endurskoðuð, og vonar nefndin, að þessu verði vel tekið.