07.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

48. mál, stýrimannaskólinn

Framsögum. Gunnar Ólafsson:

Eg skal ekki vera margorður um frumv. þetta. Nefndin öll hefir orðið sammála um að mæla með framgangi þess. Frumvarpið, eins og það nú liggur fyrir, er sniðið upp úr lögum frá 22. maí 1890; að eins slept nokkrum smávægilegum atriðum, sem nefndinni þótti óþörf. — Aðalbreytingin, sem hér er farið fram á, er sú, að prófsskilyrði fyrir minna prófinu, eru sett nokkru strangari, en nú á sér stað; þetta, að strangari prófsskilyrði, eru heimtuð við minna prófið, telur nefndin til töluverðra bóta, því að svo hagar til hér á landi, að það próf er margfalt meira notað, og er því mikils um vert, að trygging fáist fyrir því, að þeir er prófið taka, verði sem bezt að sér.

Annars held eg að mál þetta sé fyllilega ljóst. Nefndin lítur svo á, að hentugra sé, að hafa að eins ein lög um Stýrimannaskóla, og því hefir hún leyft sér að taka upp í þetta frv. lög frá 13. september 1901, um gufuvélapróf við Stýrimannaskóla í Reykjavík; af því hafa auðvitað leitt nokkrar smávægilegar breytingar og úrfellingar.

Nefndin væntir þess, að hv. deild sé sér samdóma um það, að breytingar þessar séu til bóta. Það gerir líka þeim, sem lögin eiga að nota, talsvert léttara fyrir í ýmsum atriðum. Hér eru einungis saman færð í eina heild lög um stofnun Stýrimannaskóla í Reykjavik og lög um gufuvélapróf við hinn sama skóla.

Eg vænti þess, að hv. þingdeild lofi frumvarpi þessu fram að ganga.