05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (2631)

145. mál, útflutningsgjald

Ólafur Briem:

Þessar sömu efasemdir, sem háttv. þm. Vestm. (J. M.) taldi, vöktu einnig fyrir nefndinni, og voru þess valdandi, að hún hvarf frá því að koma fram með lagafrumv. um þetta efni, heldur vildi skjóta því til landsstjórnarinnar. Það er að minsta kosti ekkert varhugavert við að þetta sé athugað og að þá komi fram tillögur um það, sem tiltækilegt þætti að laga. Og ekki virðist mér það eðlilegt, að landið geti ekki ákveðið gjald af slíkum afurðum, þegar þær koma inn á landhelgissvæðið, heldur sé bundið við það eitt, sem úr landi flytst. Aðalatriðið virðist mér vera það, að veiðin er fengin við landið, og því ósanngjarnt, að ekkert sé greitt af henni til landsþarfa.