02.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

155. mál, vatnsveitingar o. fl.

Framsm. (Sigurður Sigurðsson):

Landbúnaðarnefndin hefir eftir tilmælum mínum gerst flytjandi þessarar tillögu. Það hafa komið fram hér í deildinni lítt merkar og óþarfar þingsályktunartillögur, en um þessa till. er það að segja, að hún er fullkomlega á rökum bygð. Oss vantar tilfinnanlega lög um rétt til notkunar vatns o. fl. Um það eru engin ákvæði, nema ef til vill í Jónsbók og þá úrelt fyrir löngu. Frá 1901 eru til lög um samþyktir um varnir gegn vatnságangi og viðhaldi skurða, en þau ná svo skamt í þessu efni. Tillagan fer nú fram á það, að skora á stjórnina að leggja fyrir þingið frumv. um rétt til notkunar vatns til áveitu og framræslu o. s. frv. Slíkra ákvæða tel eg vera mikla þörf. Nú er svo háttað, að menn geta veitt vatni hver á annan, tekið vatn hver frá öðrum og hindrað þannig vatnsáveitur og gera öðrum með því óþægindi og skaða.

En það sem eg að öðru leyti hefi fyrir augunum með þessari þingsál.till., eru hin væntanlegu mannvirki, er liggja við borð hér austanfjalls, svo sem áveitan á Miklavatnsmýri og Flóaáveitan yfir höfuð, verndun Safamýrar o. fl. Þegar Flóaáveitan kemur til sögunnar, þá er nauðsynlegt, að til séu almenn ákvæði um notkun vatns, framræslu og fleira, er þar að lýtur. Þá er það og þýðingarmikið, að ákveða og skilgreina betur en nú er í lögum, réttindi og skyldur landsdrotna og leiguliða, hvors gagnvart öðrum, þegar um kostnaðarsöm vatnsveitingamannvirki er að ræða og gagnvart Flóaáveitunni fyrirhuguðu hefir þetta stórmikla þýðingu.

Eg vona því, að till. verði samþykt og að eg þurfi ekki að skýra frekar, en eg hefi gert, tilgang hennar og nauðsyn.

Eg skal að endingu geta þess, að í nágrannalöndum vorum eru til almenn lagafyrirmæli, stórir lagabálkar, um þetta efni, er till. ræðir um. Þar hafa menn fyrir löngu síðan séð þörfina á slíkum lagaákvæðum. Hér er orðin engu síður nauðsyn á samskonar lögum, og vona eg, að eigi líði á löngu, að vér fáum þau, ef till. verður samþykt.