02.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

155. mál, vatnsveitingar o. fl.

Jón Magnússon:

Það er að eins ein fyrirspurn, sem eg vildi leyfa mér að gera. Hvernig á að skilja þetta, að gera almenn réttarfarsleg ákvæði um notkun vatns? Það getur þó ekki verið meiningin, að fara að breyta réttarfarinu í neinum sérstökum málum. Annars verð eg að lýsa undrun minni yfir því, að tillaga, sem eflaust hefir fyrir augum ákvæði um rétt til notkunar vatns til áveitu eða þess konar skuli koma frá ráðunaut Búnaðarfélagsins, því að ef nokkuð ætti að koma frá búnaðarþingi, eða stjórn þess félags, sem hv. þm. er starfsmaður fyrir, þá væri það málaleitun í þessa átt. Og eg er sannfærður um það, að ef búnaðarþingið hefði farið fram á eitthvað þvílíkt, þá mundi hver einasta stjórn vera fús á að sinna því. Það getur vel verið, að þörf sé á eða gagnlegt geti verið, að fá lagaákvæði um notkun vatns og rétt manna til þeirrar notkunar. En eg skil ekki í því, að það þurfi að setja alla deildina í hreyfingu, til þess að fá stjórnina til að íhuga það mál. Mér er illa við þennan sand af þingsályktunartillögum, og mun því greiða atkv. móti þessari þingsál.till. af framantöldum ástæðum.