02.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

155. mál, vatnsveitingar o. fl.

Framsm. (Sigurður Sigurðsson):

Mér fanst háttv. þm. Vestm. (J. M.) taka mjög óstint upp fyrir mér, að hafa komið með þessa tillögu, og frekar en eg hafði búist við úr þeirri átt. Það getur verið, að eg hafi ekki notað orðið réttarfar eftir »juridískum« nótum, en eg meinti með þessu að fá skýr lagaákvæði um réttindi manna og skyldur í þessu efni. Og þótt eitthvað kunni að mega hártoga orðalagið á tillögunni, þá á það ekki að verða henni að falli. Hann talaði um að þetta hefði átt að koma frá búnaðarþinginu. Þar til liggja þau svör, að búnaðarþingið er nú um garð gengið að þessu sinni, og því hafði ekki hugkvæmst þetta. Nú vill stjórn Búnaðarfélags Íslands gjarnan fá lög um þetta efni, en telur sig bresta lagaþekkingu til þess að undirbúa þau. Það er heldur ekki nema formspurning, hvort deildin afgreiðir þetta sem þingsál.till., eða málaleitunin kemur frá Búnaðarfélaginu til stjórnarinnar. Hins vegar þótti mér vænt um að heyra það, að hv. þm. taldi nauðsynlegt að fá lög um þetta efni, og vona eg að það sé næg trygging fyrir því, að háttv. deild muni óhætt að samþ. tillögu mína. Eg sé ekki heldur, að hún fari neitt út fyrir rétt deildarinnar, eða sé móðgandi fyrir stjórnina. Hún er einnig í samræmi við skoðanir búnaðarþingsins, þótt hún komi ekki frá því, enda vona eg, að menn sjái, að hún er jafnþörf, frá hverjum sem hún kemur.