07.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

48. mál, stýrimannaskólinn

Augúst Flygenring:

Eg vil leyfa mér að skýra hinni hv. þingdeild frá því, að rétt áður en fundurinn byrjaði, meðtók eg hjá einum hv. þingm. í neðri deild, erindi til þingsins frá félagi nokkru, er nefnir sig gufuvélagæzlumannafélag. Nafnið er langt og ljótt, en það skiftir ekki miklu máli, ef það er gott, sem á bak við það felst. Í erindi þessu er skorað á þingið, að upp séu tekin lög, eða frv. til laga frá síðasta þingi um atvinnu við vélagæzlu. Líka hefi eg fengið tilkynningu frá einum elzta vélagæzlustjóranum, sem siglt hefir hér við land, og telur hann æskilegt að kend yrðu þau bókleg atriði hér við Stýrimannaskólann, nfl. hin sömu atriði vélafræðinnar og nú gilda í dönskum lögum um þetta efni: þannig, að vélagæzlumannaefnum yrði gefinn kostur á að læra hér heima, ekki að eins járnsmíði og allar nauðsynlegar aðgerðir á gufuvélum, á verkstæði, heldur einnig alt hið bóklega, sem að þessari iðn lýtur. Við þessa breytingu ynnist það á, að menn yrðu ekki lengur neyddir til þess að sækja þekkingu sína í þessari grein til annara þjóða, heldur gætu aflað sér hennar hér; og það tel eg miklu heillavænlegra.

Eg verð að játa, að þessar athugasemdir mínar koma nokkuð seint, en það kemur til af eðlilegum ástæðum, eins og allir hljóta að sjá. Eg ætlast til, að 2. umr. málsins verði frestað, og má þá aftur við framhald hennar, eða við 3. umr. koma með nauðsynlegar breytingar. Eg álít rétt, að nefndin í frumvarpi um stofnun Stýrimannaskóla taki þetta mál til yfirvegunar, og vænti þess, að hún muni vera fús til þess, ekki sízt, er hún sjálf hefir bætt við frumvarpið þrem greinum um gufuvélapróf við skólann, fyrir stýrimenn eða skipstjóraefni, er taka hið svokallaða meira próf. Allir hljóta að viðurkenna hve nauðsynlegt er, að vélagæzlumönnum sé veitt nokkur fræðsla í helztu undirstöðuatriðum aflfræðinnar, og hvernig gufuvélin er samsett og starfrækt m. m. Það nám, sem eg vona, að væntanlegir vélagæzlumenn fengju þá að njóta er ekki svo mjög erfitt; tekur líklega álíka langan tíma og nú á sér stað við minna prófið.

Við þessa breytingu þykir mér sennilegt að stofna þyrfti nýtt kennaraembætti við skólann, því mér er ekki kunnugt um, að kennarar skólans, sem nú eru — með allri virðingu fyrir þeim, — séu færir um að kenna þessum vélagæzlumönnum.

Að lokum vil eg geta þess, að kröfurnar hér á landi til þess að geta fengið borgarabréf skipstjóra, eru altof strangar, að því er okkar fiskiskipaformenn snertir.

(Lárus H. Bjarnason: Það var linað á þeim 1905).

Það var ekki linað á þeim, nema fyrir þá, sem flytja fiskibáta fyrir neðan 30 smálestir. Um aðra var ekki slakað til, heldur þvert móti. En vitanlegt er, að mestöll þessi bóklega „Navigation“ fyrir fiskimenn okkar er allsendis ónauðsynleg.

En svo er annað, sem eg kann illa við og það er ákvæðið um, að verkefni til skriflega prófsins í stærðfræði og siglingafræði við meira prófið skuli búin til af stýrimannakenslu-forstjóranum í Kaupmannahöfn. Eg veit ekki á hverju ákvæðið er bygt. Mér er kunnugt um, að það er ekki inn í frv. komið fyrir tillögu skólastjórans við Stýrimannaskólann, því hann lagði til, að verkefnin yrðu valin hér. Eg skil heldur ekki, að skólinn þurfi að vera háður eftirliti þessarar dönsku stofnunar, að minsta kosti skil eg ekki, hvers vegna meira prófið þarf að vera það fremur en það minna. Enda er líka nóg af verkefnum í dönskum bókum, svo að ofur-auðvelt er að velja þau hér á landi. Að öðru leyti skal eg ekki fara frekari orðum um frv., en vona, að nefndin taki þessar bendingar til athugunar.