02.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2131 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

156. mál, laun ljósmæðra

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Eg hefi leyft mér að koma fram með þessa þingsál.till. fyrir tilmæli ljósmæðra hér í bænum. Þetta er og mál, sem ekki er gripið úr lausu lofti, því þinginu hafa borist bænarskrár frá ljósmæðrum því nær í öllum héruðum landsins, þess efnis, að kjörum þeirra sé breytt til batnaðar. Úr Reykjavík hafa 5 ljósmæður sent erindi, úr Gullbr.s. 8, úr Kjósars. 1, úr Mýras. 1, Dalas. 5, N.-Ísf.s. 4, Skagaf.s. 4, Eyjaf.s. 10, N.-Múlas. 10, V.-Skaftaf. 4, Árness. 12, Borgarf.s. 5, Strandas. 3, Húnav.s. 5 og Rangárv.s. 11, eða með öðrum orðum: alls hafa 92 ljósmæður beðið um, að þessu efni væri hreyft hér á þinginu. Þegar svo er, getur mönnum varla blandast hugur um það, að hér er ekki um neitt tilfelli, tilviljun eða »tilbúin« samtök að ræða, heldur er það nokkurnveginn almenn skoðun, að breyta þurfi kjörum þessarar stéttar. Þessum málaleitunum fylgir nú líka umsögn frá landlækni vorum frá 15. febr. þ. á.. Getur hann þess þar, að málið sé eigi fullrannsakað enn þá, en hitt er hins vegar vitanlegt, að ljósmæður eru einna verst settar að launum í fjölmennustu umdæmunum, en öllu skár í sveitunum, þótt laun þeirra séu þar ekki nema 60 kr., en 200 kr. í kaupstöðum. Það segir sig nú sjálft, þegar borið er saman við það, hve mikið fé gengur til allrar læknaskipunar hér í landi, að þessi stétt muni eigi vera of vel launuð í hlutfalli við það. Þarf þó ekki að lýsa því, hve nytsöm og kærleiksrík starfsemi þessarar stéttar er. Það vita allir, þótt því hafi ef til vill ekki verið sá gaumur gefinn, sem skyldi. Það er að hjálpa manneskjunum inn í, eða út í, veröldina. Það er sagt, að tveir séu í hættu hverri, en hvergi á það frekar við en þar: móðir og afkvæmi.

Mér þótti ekki þörf á því, að farið væri að setja lög um þetta nú, en af því að þessar almennu umkvartanir lýsa því, að þetta sé þarft og á rökum bygt, þá er ekki nema rétt og sjálfsagt að biðja stjórnina að ganga í þetta mál. Enginn taki orð mín svo, sem eg vilji með þessu grípa fram fyrir hendurnar á landlækni, sem er dugnaðar — og áhugamaður, en eg vildi gera mitt til þess, að minna stjórnina á það, að láta ekki málið sofna og láta ekki gleymast að undirbúa það undir næsta þing. Það munu flestir skynja, að það er þarft, að bæta kjör þessarar stéttar, sem innir af höndum jafn þarft hlutverk fyrir þjóðfélagið, jafnvel þarfara enn nokkur önnur stétt í landinu.