06.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

166. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Ráðherrann (B. J.):

Fyrirspurninni er fljótsvarað: stjórnin hefir alls ekkert gert í þessu máli. Ástæðurnar til þess eru þær, að þó að Nd. samþykti áskorun um rannsókn og undirbúning þessa máls, þá vísaði hún hvorki á fé til framkvæmda né hverja aðferð skyldi hafa við undirbúning málsins. Til eru margar aðferðir til þess að fá að vita vilja almennings, en beinasta og eina tiltækilega aðferðin er sú, að leita atkvæða allra alþingiskjósenda í landinu, en það hefir bæði kostnað og fyrirhöfn í för með sér. Þegar spurningin um aðflutningsbann á víni var lögð fyrir þjóðina, var alt öðru máli að gegna, því að þá fóru um leið fram almennar alþingiskosningar. En síðan á síðasta þingi hafa engar kosningar farið fram og stjórnin því ekki séð neina leið til þess að afla sér vitneskju um vilja kjósenda í þessu máli. Hefði átt að framkvæma téða áskorun, þurfti ekki einungis að vísa á einhverja tiltækilega leið til að komast fyrir vilja almennings, heldur löglega fjárveiting til að standast kostnaðinn, — ekki nóg að neðri deild láti í ljós ósk sína um þetta.