24.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

103. mál, myndugleiki

Lárus H. Bjarnason:

Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þessa tillögu. Hún má heita orði til orðs samhljóða tillögunni, er samþykt var hér í deildinni 1909 og er nr. 270 í skjalapartinum frá því ári, enda þingmenn allir þeir sömu og þá voru. Af þessu tvennu er það sýnilegt, að ekki þarf að halda langan kapítula um hana. Frv. það sem borið var fram hér á síðasta þingi, en hætt var við með samþykki flutningsmanna, hv. þm. Ísafj., og frv. stjórnarinnar fyrverandi, sem felt var hér á dögunum, lutu aðeins að breytingum á gildandi ákvæðum um fjárhagslegan myndugleika; en ef á að fara að breyta þeim, þá virðist það ekki úr vegi að taka líka til athugunar persónulegan myndugleika, og slá saman í eitt öllum þeim ákvæðum, sem um þetta efni eiga að gilda. Það er því fremur ástæða til að taka alt þetta mál til ítarlegrar rannsóknar, sem ákvæðin þar að lútandi eru misjafnlega gömul, allar götur frá 1683 og fram á 20. öld. Þau eru því hvergi nærri samrýmileg hvert við annað, og mörg þeirra úrelt. Á þingi er erfitt að búa til slík lög. Til þess þarf bæði næði og fagþekking. En á þinginu er næðið lítið, og nýtur fagþekkingin sín því ekki sem skyldi, þótt til væri. En stjórninni er innanhandar að búa til slík lög, eða að njóta aðstoðar annara til þess. Og eg hygg að í höndum núverandi stjórnar sé málið í góðum höndum.

Breytingar frá því sem tillagan 1909 var orðuð eru svo sem engar, aðeins tvær. Önnur er sú, að ekki þarf að leggja lögin fram fyr en á næsta reglulegu alþingi, og var hún gerð vegna þess að búist var við aukaþingi, þegar nefndarálitið var á ferðinni. Hin er sú, að í þessari tillögu stendur að stjórnin megi „láta rannsaka“ o. s. frv., þar sem eldri tillagan fól stjórninni „að rannsaka“ efnið o. s. frv. En þetta er í rauninni engar eða litlar efnisbreytingar, því að þessa heimild til að njóta aðstoðar annara hefir stjórnin auðvitað, hvort orðalagið sem haft er, en vitanlega má búast við að sú aðstoð kosti eitthvað. — Að öðru leyti vil eg vísa til nefndarálitsins frá 1909 nr. 271 í skjalapartinum, og framsöguræðu minnar, sem er á bls. 1041 í umræðupartinum. Skal eg svo ekki fjölyrða meira um tillöguna, en vona að háttv. deild taki henni vel.