20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

79. mál, strandferðir og millilandaferðir gufuskipafélagsins

Flutningsmaður (Gunnar Ólafsson):

Eg þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektirnar, að hann ætlar að athuga málið og gera það sem í hans valdi stendur. Eg skal ekki þrátta um það, hvort samningarnir við Thorefélagið séu brotnir eða ekki, en þó minnir mig, að í samningnum sé að Suðurlandsbáturinn skuli vera 100—150 tonn, og er þá samningurinn ekki uppfyltur, því að „Perwie“ er stærra og auk þess öðru vísi útbúin en til var ætlast og lofað var. Þá eru það líka samningsrof, ef ferðaáætlun bátsins er einskis virt og ekki haldin. Hv. þm. Ak. virtist ekki vilja gera mikið úr þessum misfellum á ferðunum, og er það líklega af því, að honum er málið ekki eins kunnugt og þeim er við þetta ástand verða að búa. Hann sagði, að málið væri ekki tímabært nú, vegna þess að skifta ætti um skip nú í sumar. En þessu sama mun hafa verið slegið fram áður eða lofað góðu um, en það nægir ekki, ef það er aldrei uppfylt. „Perwie“ er ekki horfin enn, og verður líklega áfram, ef ekki er tekið duglega í taumana. Það er rétt að „Perwie“ hefir verið notuð til millilandaferða, en einungis sem flutningaskip. Skip, sem ætlað er að flytja fólk og hefir fasta áætlun, verður að vera þolanlega hraðskreitt og hafa farþegarúm, svo sem menn hafa átt að venjast þar til nú, að Thorefélagið kom Perwie þarna. Það getur vel verið að „Perwie“ sé góð í sjó og sé gott flutningaskip og síldarveiðaskip. En hún er ekki gott farþegaskip. Hv. þm. Ak. tók það fram, að við mættum ekki vera of kröfuharðir á þessu svæði, þar sem strandferðirnar borguðu sig ekki, en þar sem að svona stendur nú á, að fólkið kemst ekki af án ferðanna, þá er þinginu skylt að hjálpa þessum sveitum til að þær geti notið samgangna. Það voru veittar 20,000 krónur til þessara ferða og þykir mér líklegt að ferðirnar gætu borgað sig, ef að báturinn væri góður. Og þegar landssjóður leggur svo mikið fé til ferðanna, þá er sjálfsagt að þing og stjórn heimti að ferðirnar séu í lagi og samsvari gjaldinu. Það er farið fram á það í 2. lið tillögunnar, að Suðurlandsbáturinn byrji ferðir sínar í Aprílmánuði. Það getur ekki verið ósanngjörn krafa, þegar litið er á það, að ferðirnar byrjuðu altaf í Aprílmánuði þegar Sameinaða félagið hafði þær. Það hepnaðist þá og ætti eins að hepnast nú. Vík er útilokuð frá ferðum frá því í ágúst og alt til vors. Þessvegna er það nauðsynlegt að skipin byrji ferðir sínar svo snemma á vorin sem hugsanlegt er. Hv. þm. sagði, að þessi tillaga hefði ekki átt að koma fram, þar sem eg væri í nefnd til að íhuga strandferðirnar, en tillagan var prentuð og útbýtt áður en nefndin var skipuð. Eg verð að játa það, að eg álít þetta svo einfalt mál, að engin vandræði sé fyrir deildina að samþykkja það, eins og það nú liggur fyrir, enda mundi stjórnin rannsaka það og kippa því í lag, eftir því sem hægt er. Hinsvegar hefi eg ekki á móti að vísa þessu máli til nefndarinnar, sem eg gat um áðan, ef að hv. deildarmenn óska þess.