04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Framsögumaður:

Það var hæstv. ráðherra, sem gerði athugasemd við 4. lið tillögunnar, og það var rétt, sem hann sagði, að það er munur á því, hvort umframgreiðslur hafa átt sér stað við fastákveðnar fjárveitingar, eða áætlaðar upphæðir lögmæltra gjalda. Það hefir alt af verið venja að tilfæra ekki þær upphæðir, sem gera má ráð fyrir að settar hefðu verið í lögin, ef vissa hefði verið um, hve miklar þær mundu verða. En reynslan sýnir, að það geti verið meiningamunur um það, hvað séu fastákveðnar fjárveitingar og hvað ekki. Sá meiningamunur hefir orðið svo mikill á fjáraukalögunum 1908—09, að nefndin í neðri deild tekur það fram, að fyrir utan þær upphæðir, sem standa þar í 8. gr. frv., séu 27 liðir, sem stjórnin hafi ekki tekið upp, en sem yfirskoðunarmennirnir telja að þurfi aukafjárveitingu fyrir. Þar sem nú að þarna voru um 30 liðir, sem ekki hafa verið teknir upp, þá hefir það verið samþykt í neðri deild til að koma í veg fyrir ágreining framvegis, að taka skuli upp allar umframgreiðslur, hvort heldur þær eru við áætluð gjöld eða fastákveðin. Nefndin tók það til skoðunar, að hér væri verið að breyta frá reglu, sem fylgt hefði verið frá því 1875 að fjárlög voru fyrst samþykt, en áleit að með þessari nýju aðferð yrði komið í veg fyrir óþarfa ágreining, þar sem meiningamunur gæti orðið svo mikill. Viðvíkjandi því sem háttv. þingm. Akureyrar sagði um 7. liðinn, þá er eg honum alveg samdóma. Sú tillaga er góð og gagnleg. En nefndinni þótti ekki ástæða til að taka hana þarna upp af því, að með því væru eins og opnaðar dyr til að koma að alls konar ályktunum, sem ekkert koma landsreikningnum við.