04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Ráðherra (Kr. J):

Þetta hefir ekki sannfært mig um að rétt sé að fara svona langt. Þegar það er ljóst, að upphæðin er áætluð upphæð, þá er það vafalaust, að stjórninni er veitt heimild til að fara fram yfir hina „áætluðu“ upphæð til að koma verkinu í framkvæmd. Þegar um litlar upphæðir er að ræða, 5, 10 eða 15 kr., þá er engin ástæða til að taka þær upp í fjáraukalög; með því móti yrðu þau stór bálkur. En held, að það eigi að vera komið undir „conduite“ stjórnarinnar hvort hún álítur umframgreiðsluna svo mikla, að það þurfi að koma til þingsins kasta, að samþykkja hana á aukafjárlögum. Eg get ekki séð, að þó að einhver misbrestur hafi orðið á þessu síðustu 2 árin, að svo þurfi að vera næstu 2—3 árin. Eg kannast við, að það hafi verið slept of mörgum útgjöldum, sem hefði átt að taka upp í fjáraukalögin, þótt hinsvegar sé vafasamt um sum atriðin. Eg sé ekki að þingið bæti sig neitt á því að fara að samþykkja þetta. En svo er enn, að það á samkv. liðnum ekki að taka aðrar umframgreiðslur upp en þær, „er nokkru nemi“. En hver á að dæma um það, hverjar upphæðir nemi nokkru ? Það verður auðvitað stjórnin. Eg held því að betra væri að fella alveg burtu þennan 4. lið, hann má missast.