04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Sigurður Hjörleifsson:

Máli þessu víkur svo við, að í háttv. neðri deild voru bornar fram 2 tillögur til þingsályktunar, önnur frá peningamálanefndinni um að skipa milliþinganefnd til að rannsaka bankamál landsins, og hin frá tolllaganefndinni um að skipa nefnd til að rannsaka einkarétt á aðfluttum vörum.

Til þess að spara fé, kom nefndunum saman um að steypa málunum saman og skipa aðeins eina nefnd. Eg skal játa, að verkefnið er mikið og það er hæpið, hvort nefndin geti leyst starf sitt viðunanlega af hendi á svo stuttum tíma. Mér er ekkert kappsmál um, hverjir verði skipaðir í þessa nefnd, en þætti hinsvegar leitt ef hún yrði ekki skipuð, og henni falið að íhuga bæði þessi stórmál. Það er líka full þörf á að rannsökuð sé hlutafélög og sameignarfélög, því þau eru orðin hreinasta þjóðarplága; svo mikil er orðin óreiða í þeim málum.

Eg hefi skilið tillögur tolllaganefndarinnar svo, að það lægi sérstaklega fyrir þessari nefnd, að rannsaka hvernig væri tiltækilegast að auka tekjur landsins, en þeirri spurningu er ekki vel svarandi fyr en búið er að rannsaka, hvort tiltækilegt sé að gjöra það með einkarétti á aðfluttum vörum Ef það reynist ekki tiltækilegt, þá rís spurningin, hvernig eigi að gjöra það.

(Júl. Havsteen: Ekki með einokun).

Nafnið gerir ekkert til. Það er mest vert um gagnið, og einokun tíðkast í fleiri löndum, t. d. Frakklandi. Þó að nefndinni sé hér ætlað mikið starf, þá mun hún þó geta nokkru afkastað fyrir næsta þing. Og mun eg því greiða henni atkvæði. Eins og nú er ástatt, þykir mér undarlegt að menn skuli ekki sætta sig við það, sem öll tolllaganefndin í neðri deild hefir lagt til um skipun nefndarinnar. Eins og kunnugt er, þá hefir stjórn sú, sem nú situr að völdum, eiginlega ekki neinn flokk á bak við sig, það er því eðlilegt að flokkarnir komi sér saman um það í Sameinuðu þingi, hverjir skuli hafa sæti í nefndinni.