04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Steingrímur Jónsson:

Eg vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að það er undarlegt, að tillaga er nú komin fram um milliþinganefnd, áður en þingið er búið að vinna úr því, sem milliþinganefndin í skattamálunum kom með, og eg álít þessa tillögu frá háttvirtri neðri deild hreinasta „humbug“.

En ef nefnd ætti að skipa, væri miklu réttara að stjórnin skipaði hana en þingið, þar sem þingið mundi velja í hana að mestu eftir flokkum.

Nefndarstarfið á að grípa yfir allar greinar atvinnumálanna, og sé tilætlunin að þetta sé gert í flughasti, svo að árangurinn verði lagður fyrir næsta þing, þá ætti nefndin að falla.

Ef aðeins væri tekið aðalatriðið, hvort ekki væri kostur á að útvega landsjóði auknar tekjur, þá væri það sæmilegra, þó ekki sé rétt að vera að koma með nýja milliþinganefnd, meðan þingið getur ekki tekið til meðferðar frumvörp þau, sem skattamálanefndin samdi. Eg hefi gengið inn á að taka aftur 4. breytingartillögu okkar, þó eg álíti að hún hefði verið til bóta. Eg álít að milliþinganefndir starfi betur, ef þær eru kosnar af stjórninni og þá starfa þær á hennar ábyrgð. En þetta hefir fordæmi frá 1907.