04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Sigurður Stefánsson:

Eg verð að taka undir með þeim háttvirtum þingmönnum, sem hafa látið það í ljósi, að þetta verkefni sé svo mikið, að ekki muni finnast menn í landinu, er geti int það af hendi á svo stuttum tíma.

Eg felli mig betur við breytingartillöguna við 1. lið en fyrsta lið sjálfan, en eg álít að hið merkilegasta í tillögunni sé 3. liður, sem hefði átt að vera 1. liður.

Eg vil taka undir með háttvirtum þingmanni Akureyrar, að það sé orðin hin stærsta ógæfa, hvernig þessi samvinnufélagsskapur er rekinn.

Þing og stjórn hafa næstum virt að vettugi alt það starf, sem millilandanefndin í skattamálum vann, og er það óviðeigandi að vera nú að skipa nýja nefnd, meðan ekki er unnið úr því sem nefndin hefir gert áður. Um þriðja lið tillögunnar er mér einna sárast, og eg álít að tolllaganefndin hefði unnið þarfara verk að binda nefndarstarfið aðeins við þann lið heldur en að taka þetta alt upp.

Það er ekki gott að vita, hvert fjártjón það, er þegar er orðið, getur orðið fyrir landið, er hver fjárglæframaðurinn á fætur öðrum leiðir bændur út í heimskulegar spekulationir; víst er það að nú stendur margur bóndinn með bogið bakið undir þeim skuldum og ábyrgðum, sem hann af einfeldni sinni hefir undirgengist í sumum þessum svo nefndu samvinnufélögum, kaupfélögum og iðnfyrirtækjum, sem nú eru annaðhvort alveg farin á höfuðið eða því sem næst. Að reisa skorður við þessu með lögum er að vísu ákaflega mikið vandaverk. Það hefir um langan tíma verið á prjónunum hjá bræðraþjóðum okkar, og ætti reynsla þeirra að geta verið okkur til gagns og lög þau sem þeir hafa sett um þetta gætu orðið til hliðsjónar við lagasetningu um þetta mál. Stjórnin átti að búa veruleg tekjuaukalög undir þingið að þessu sinni, en hún hefir vanrækt það fullkomlega, sem svo margt annað, og það svo rækilega, að hún hefir ekki komið svo sem með neitt í hið stóra skarð, sem verður eftir vínfangatollinn í tekjum landsins. Og svo tolllaganefndin í háttvirtri neðri deild. Eg ber ekki „respekt“ fyrir henni. Hún er sú aumasta nefnd, sem verið hefir á þessu þingi.

Hún fær þetta mál í hendur í þingbyrjun og skilar því af sér nú í þinglok og hefir sama sem ekkert gert. Er svo málið sent hingað í efri deild alveg óundirbúið, og á það því sammerkt svo mörgu, sem frá neðri deild kemur. Um einkaréttinn skal eg ekki tala mikið, en eg hygg að þeir séu hér fáir, sem bera gott skyn á það mál.

Við höfum tollstofna hér, sem við gætum notað miklu betur en nú er gert, án þess að auka verulega tolleftirlit eða að gera það dýrara sem nokkru nemi, og ætti nefndin fyrst og fremst að athuga þá.

Hinsvegar legg eg ekki mikið upp úr breytingartillögunum, en mun greiða tillögunni atkvæði, þó það sé ekki af neinu tilliti til nefndarinnar.

Það er nú orðin tízka að draga alt til síðustu stundar, og má segja um þingið eins og sagt er um valinn, er hann hefir drepið rjúpuna, að hann kennir sín ekki fyr en kemur að hjartanu.

Nú í þinglok fara menn fyrst að sjá, í hvaða ógöngur er komið, og er þá farið að fálma út í loftið og tekið til ýmsra ráða, sem eru miður heppileg.

Það er venja að þingið velji þessar milliþinganefndir, en ef við hefðum stjórn, sem við gætum treyst, væri fult eins rétt að fela henni að útnefna mennina. Í þessu máli er mér sama hvort er.

Það var sagt, er við fengum innlenda stjórn, að hún mundi undirbúa lögin betur fyrir þingið. Sú von hefir allmjög svikið þetta land.

Aldrei hefir verið meiri milliþingajarmur en á síðustu þingum.

Um flokkana skal eg ekki tala; framtíðin verður að skera úr því, hvernig skipast um þá, en því get eg búist við, að allmjög verði næsta þing öðruvísi skipað en þetta þing.