04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Lárus H. Bjarnason:

Það var margt rétt í ræðu háttvirts þingmanns Ísfirðinga, eins og vant er, og er eg honum sérstaklega sammála um, að nauðsyn væri á því, að búin væru til lög um stofnun atvinnufélaga, eins og eg tók fram á þingi 1909, enda var þetta eitt af því, sem stjórnin hefði átt að gera, en lagðist undir höfuð, eins og flest eða alt annað, sem hún átti að gera í löggjafarmálum.

Eg hallast einnig fremur að brt. við 1. lið en að sjálfum liðnum, en tel auk þess eftir atvikum rétt að fella niður 2. og 3. lið, ekki af því, að ekki væri gott að þeir væru einnig athugaðir, heldur af því að eg veit ekki völ á mönnum, er væru vel vígir á þá alla, enda tíminn of naumur til að sinna svo mörgum málum til aukaþings eða jafnvel til næsta reglulega alþingis.

Út af því, hvort nauðsynlegt sé að brúka mikið milliþinganefndir, eftir að stjórnin er orðin innlend, er rétt að geta þess, að fyrsta innlenda stjórn brúkaði lítið milliþinganefndir og bjó þó lög vel undir þingið. Hinsvegar gerðu þær nefndir, sem störfuðu í hennar tíð, mikið gagn.

Öll lagafrumvörp kirkjumálanefndarinnar að 1 undanteknu, sem stjórnin lét liggja, gengu t. d. fram lítið breytt. Fátækralaganefndin kom með tvö lagafrumvörp, sem gengu bæði fram og þykja góð lög.

Nú, með því hér er um mikið vandamál að ræða, tel eg eftir atvikum rétt að nefnd sé skipuð, enda þótt eg beri gott traust til núverandi stjórnar, hvort sem sannara er, að hún hafi mikinn eða lítinn flokk að baki sér.

Eg skal engu spá um, hvor flokkurinn verði ofaná við næstu kosningar. Þjóðin er því miður svo lítið þroskuð eins og sýndi sig 1908, að veðrabrigði með henni verða ekki fyrirfram séð, fremur en í loftinu yfir oss.