04.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Lárus H. Bjarnason:

Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Ísfirð., sem eg gleymdi áðan, en vil ekki láta ómótmælt. Hann sagði, að báðir flokkar á þinginu væru jafnsekir í fjármálunum. Þetta er ekki rétt. Hinn svokallaði Sjálfstæðisflokkur hefir enn þá meiri hluta atkvæða bæði í neðri deild og í sameinuðu þingi. Sá flokkur ræður því öllum fjárlögum og hefir ábyrgð á því, hvernig fjárlög og fjáraukalög fara frá þinginu. Annars skal eg benda á það, að minni hlutinn hefir verið varkárari í fjármálunum en meiri hlutinn. Hann á svo sem engan þátt í hinni gífurlegu gjaldahækkun á fjárlögunum; meiri hlutinn á hana því nær alla. Og það er of mælt, að enginn stefnumunur sé milli flokkanna í fjármálum. Farmgjaldsfrumvarpið var fullkomlega flokksmál í neðri deild. Það mál, svo ómögulegt sem það er, er mál meiri hlutans og minni hlutinn vill enga ábyrgð á því hafa.

Annars er eg ekki hræddur um, að nefndin verði mjög illa skipuð. Eg treysti flokkunum til að velja svo vel sem kostur er á, að minsta kosti eru til menn í minni hlutanum, er vel gengir væru í slíka nefnd, og þar sem stjórnin á að velja oddamanninn, þá er óhætt að búast við að meiri hluti nefndarinnar verði að minsta kosti viðunanlega skipaður.