06.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (2731)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Björn Kristjánsson:

Peningamálanefndin hefir leyft sér að koma fram með brtill. við þingályktunartillögu þessa. Eins og kunnugt er, er tillaga þessi orðin til hjá peningamálanefndinni fyrir þá sök, að hún hafði meðferðis tvö stór bankafrumvörp, annað um fasteignaveðsbanka, hitt um breytingu á bankalögunum, sem henni þótti réttast að milliþinganefnd athugaði, þar sem hér var um svo mikilsvert mál að ræða. En til þess að hjálpa bankanum við í svip, kom nefndin með frumvarp um að landsjóður legði fram tryggingarfé fyrir útgáfu veðdeildarbréfa. Nú hefir háttv. efri deild felt burtu þennan aðaltilgang tillögunnar og tekið annað í staðinn, það, að íhuga hvort heppilegt væri að landið hefði einkasölurétt (monopol) á nokkrum aðfluttum vörum, sem peningamálanefndin í neðri deild var líka einhuga um að fela þessari nefnd, og sett var inn í tillöguna í samráði við tolllaganefndina. Þar sem nú að þessi upphaflegi tilgangur tillögunnar er horfinn, og þar sem oss finst full ástæða til að skipa þurfi 5 manna milliþinganefnd til að athuga þessi stórmál, sem þeir 7 menn, sem í peningamálanefndinni sátu, ekki treystu sér til að eiga við, sérstaklega fasteignabankann, þá hefir nefndin leyft sér að koma með þessa br.till. Milliþinganefndin á að athuga, hver ráð eru til að koma í veg fyrir það, að alt sitji fast eftir stuttan tíma. Þessi mál eru nú allvel undirbúin og auk þess mundi nefnd sú, sem skipuð væri, njóta aðstoðar bankastjóranna til að koma þeim í lag.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að fyrir hverju þingi liggur fjöldi lánbeiðna, bæði til ama fyrir þingið og þá sem sækja og fá þær veittar, en geta ekkert fé fengið. Það sést því, að ekki er vanþörf á að koma landsbankanum í það horf, að hann geti veitt lánin. Eg vonast því til, að háttv. sameinað þing vilji fallast á að fela þessari nefnd að íhuga bankamál landsins, og það, hversu koma megi íslenzkum verðbréfum í peninga.

Fjórða atriðinu í tillögunni höfum vér slept til samkomulags, því sem sé, að fela nefndinni að athuga ýms verzlunarmál, og til þess að leggja ekki alt of mikið á herðar þessarar nefndar.