06.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

141. mál, einkaréttur landssjóðs á aðfluttum vörum

Augúst Flygenring:

Háttv. 1. þm. Gullbr.-Kj. mintist ekki á allar breytingarnar, sem gerðar voru á tillögunni í efri deild. Það var gerð þar breyting við 1. lið og það er einmitt sú breyting, sem eg legg mesta áherzlu á. Það er 1. liðurinn, sem er mergurinn málsins. Peningamálanefndin vill orða hann svo, að nefndinni sé falið „að rannsaka, hvort tiltækilegt sé að auka tekjur landsjóðs með einkarétti á aðfluttum vörum“. Ef liðurinn er orðaður svo, þá er nefndin bundin við það eitt. Mér þykir undarlegt, og eg skil ekki því háttv. þm. Gullbr.-Kj. er þetta orðalag liðsins svo fast í hendi. Hann hefir ekki hingað til, er mér kunnugt um, verið þessari stefnu einni meðmæltur, hvað aukna skatta snertir, heldur alt annari. Eg fylgi því eindregið, að látið verði standa orðalag liðsins, eins og það er í tillögunni, að nefndin sé skipuð til „að rannsaka með hverju móti tiltækilegt sé að auka tekjur landsjóðs, og í sambandi við það, hvort heppilegt væri að landið hefði einkasölurétt á nokkrum aðfluttum vörum“. Með því móti eru ekki útilokaðar aðrar leiðir til skattaaukninga. Nefndin getur þá rannsakað þær leiðir, sem hún vill. Eftir brtill. peningamálanefndarinnar álít eg að milliþinganefndin sé eingöngu bundin við að rannsaka einkarétt (monopol) á aðfluttum vörum, og að hún geti ekki rannsakað, á hvern annan hátt megi auka tekjurnar.

Um hinn liðinn, sem hér er lagt til að bætt verði við aftur: að fela milliþinganefndinni að íhuga bankamálin, er mér nokkurnveginn sama. Eg álít hann gagnslausan og ekkert sagt með honum. Þegar þessi tillaga lá fyrir efri deild, vissum við ekkert, hvernig á liðnum stóð. Nú hefir okkur verið skýrt frá, að hann eigi aðallega við breytingu á Landsbankalögunum, frumvarp um stofnsetningu fasteignabanka, sem peningamálanefndin hafði til meðferðar. Mér þykir ekki ólíklegt, að milliþinganefndin geti bent á góð ráð, hvernig hagkvæmast sé að stofna fasteignabanka, en hvort hann kemst í framkvæmd eða ekki, hlýtur að verða komið undir því, hvort nokkurt fé fæst til þess. Annars geri eg ekki 2. liðinn að neinu ágreiningsatriði. Um 1. liðinn er mér sárara, að úr honum sé slept því orðalagi, með hverju móti tiltækilegast sé að auka tekjur landsjóðs. Eg er ekki enn orðinn svo trúaður á monopol, að eg telji það eitt tiltækilegt til tekjuauka og annað ekki; heldur vil eg álíta að jafnframt eigi það að vera hlutverk milliþinganefndarinnar að finna eitthvert annað ráð til að fylla skarð það, sem bannlögin hafa höggvið í tekjur landsins, ef henni skyldi ekki lítast einkasöluleiðin meir en svo heppileg.

Eg er á móti brtill., af því að þar er nefndin bundin við það eitt, að rannsaka monopol.