17.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

Erindi frávikins gæslustjóra

Forseti:

Það er rétt, að háttv. þm. Borgf. talaði við mig í gær og fór fram á það að eg læsi erindi frá sér upp fyrir deildinni. Eg tók því ekki fjarri þá, því að eg bar það traust til hans, að hann vissi af einhverjum stað í þsk., er heimilaði það. En er eg hafði íhugað málið betur, bað eg hann rétt fyrir fundinn áðan að koma ekki fram með þessa ósk, því eg gæti ekki orðið við henni. Eg áskildi það, að erindið kæmi fram í réttu formi. Erindið er mjög langt og ræðir um stórmál, sem hlýtur að koma fyrir þingið. Rétt er formið ekki, nema bréfið sé prentað, útbýtt, og fyrirtektartími þess tilkyntur. Svo er ákveðið í þingsk., að fara skuli með hvert mál, er þingmaður ber fram eða flytur inn í þingið, hvort heldur eru frumvörp, þingsályktunartill. eða fyrirspurnir til stjórnar eða annað, — og eg skal bæta því við, að því minni ástæða finst mér til að lesa bréfið upp, þar sem háttv. þm. hefir tjáð mér, að hann ætli hvort sem er að láta prenta það sem þingskjal í máli, sem mun koma fyrir deildina.

Háttv. 5. kgk. þm. vildi opna málinu nú þegar veg inn á þingið með því að heimfæra það undir 11. gr. þingskapanna, 3. lið, en það er eigi unt.

(Lárus H. Bjarnason: Ekki í dag. Síðar).

Já, það er rétt; það er ekkert á móti því, að það geti komist inn undir þessa grein síðar meir, þegar það hefir fengið þann undirbúning, sem þingsköpin gera ráð fyrir. Nú er forsetaúrskurður fallinn, og við það stendur. —