22.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

48. mál, stýrimannaskólinn

Framsögum. Gunnar Ólafsson:

Frumvarp þetta hefir tekið dálitlum breytingum í hv. neðri deild. Og eins og tekið er fram í nefndarálitinu, miðar aðalbreytingin til þess að gera prófin nokkru þyngri, heimta meiri kunnáttu í siglingafræði og enskri tungu. Nefndin er samþykk þessu yfirleitt og þó einkum því að heimta ekki minni kunnáttu í enskri tungu heldur en í dönsku; því að það er alkunnugt, að enska kemur mönnum hvarvetna í lífinu að meira liði en danska, og auk þess er ekki óhægra að nema hana, svo að bjargast megi, en dönsku. En eina br.till. hefir hv. neðri deild þó gert á frumv. þessu, sem nefndin var í vafa um hvort samþ. ætti; sem sé það, að forstjóri stýrimannaskólakenslunnar í Danmörku skuli ekki framvegis velja á verkefni við stýrimannaprófið hér.

Það er skiljanlegt hvað fyrir hv. neðri deild hefir vakað, og í sjálfu sér er nefndin samþykk því. En hún hefir nokkurn ótta af því, að þessi úrfelling gæti orðið til þess, að stýrimenn, sem leituðu sér atvinnu erlendis, gætu goldið þess, þar sem skólinn hér er ungur og lítt þektur, eða að stýrimannaefni færu utan til þess að taka próf í því skyni, að það aflaði þeim meira álits.

Þrátt fyrir þetta hefir þó nefndin álitið rétt að leggja til við hina hv. deild, að hún samþykki frumv. óbreytt.