02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

114. mál, bankavaxtabréf

Eiríkur Briem:

Í nefndarálitinu eru teknar fram allar aðalástæðurnar fyrir því, að frumv. þetta verði samþ. Það eru nú talsvert breyttar kringumstæður frá því á síðasta þingi. Bankinn á nú í töluvert meiri örðugleikum en þá. Þá var ekki búist við eins miklum beiðnum um lán úr veðdeild, og átt hefir sér stað, sérstaklega þar sem menn vissu að fasteignir voru þá orðnar mjög bundnar. En reynslan hefir sýnt að þetta varð þó nokkuð á annan veg, þar eð beiðnir um mjög mikil lán hafa komið frá sveitastjórnum og bæjarstjórnum. Af þessum ástæðum veitir bankanum ervitt að leggja fram nægilegt tryggingarfé. Eg ímynda mér að menn mundu alls ekki skoða huga sinn um að veita þessa heimild, ef ekki væri erfitt fyrir landssjóðinn að leggja fram þessa tryggingu, 125 þús., en ástæður landssjóðs eru vitanlega þannig, að óumflýjanlegt er, hvort sem er, að gera ráðstafanir til þess að hann geti staðið strauminn.

Rentutapið er ekki eins tilfinnanlegt fyrir landssjóð eins og fyrir Landsbankann, hann fær ekki af fé sínu eins háa vexti.