01.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

30. mál, laun sóknarpresta

Eiríkur Briem:

Háttv 5. konungkj. gat þess til, að eg mundi staðfesta orð sín. Það er líka alveg rétt, að launaflokkaskipun presta var hjá kirkjumálanefndinni gerð af yfirlögðu ráði, en ekki út í bláinn. — Aðalmarkmið kirkjumálanefndarinnar í þessu efni, var að haga svo til og hnitmiða skipun launaflokkanna svo, að í járnum stæði með kostnaðinn, og að breytingin hefði engan kostnaðarauka í för með sér fyrir þjóðfélagið. —

Það er því engin tilviljun, að svo var um hnútana búið, að ekki gæti verið í 1. launafl., meira en þriðjungur presta; í 2. fl. annar þriðjungur o. s. frv. En þeirri frumreglu nefndarinnar að láta kostnaðinn við laun prestanna vera jafn mikinn, þegar breytingin væri öll komin á, eins og áður hafði verið, var jafnvel undir eins á þinginu 1907 raskað, og enn á þinginu 1909. Eg skal játa það, að eðlilegra finst mér, að miða launin við embættisaldur, og það duldist engan veginn nefndinni; en hún gat ekki fylgt þeirri frumreglu, er hún hafði tekið sér, ef hún miðaði við tölu embættisáranna, en úr því þeirri frumreglu er slept, þá virðist vel mega gera það.

Í frumvarpi þessu er nú farið fram á, að launin hækki eftir þjónustuárum.

Það hefir verið gert ráð fyrir, að meðalþjónustu aldur presta, sé 30 ár; nákvæmt er þetta nú líklegast ekki; en maður getur sagt, að hann muni vera á milli 30—36, þó nokkru nær 30.

Nefndin hefir miðað allar sínar tillögur við það, að á sama mætti standa þegar fram liðu stundir fyrir prestlaunasjóð og landsjóðinn, hvorri reglunni fylgt væri.

Fyrir nokkrum árum var alveg óvanaleg fjölgun presta hér á landi, þótt nú sé því nokkuð öðruvísi farið; og mundi t. d. eftir 1890 prestar hafa komist upp í 2. launafl. eftir mjög fá þjónustuár.

Það er mikið rétt, að á næsta ári kostar breytingin 3400 krónur; úr því fer kostnaðurinn minkandi smátt og smátt, en það er ekki hægt að reikna þetta út og sýna nákvæmlega með tölum, hve mikið hann muni lækka hvert ár.